Hluti lifrarinnar fjarlægður

Spurning:

Sæll.

Ef krabbamein finnst í lifrinni er þá hægt að taka hluta af henni og lifa eðlilegu lífi á eftir?

Svar:

Það er hægt að fjarlægja rúmlega helming lifrarinnar, t.d. vegna krabbameins, án þess að viðkomandi hljóti varanlegan skaða af. Krabbameinið verður þó að vera afmarkað í lifrinni, t.d. í öðrum helmingi hennar og ekki vaxið inn i stóru æðarnar miðlægt í lifrinni því að þá getur verið ómögulegt að fjarlægja það. Eftir að hluti lifrarinnar er numinn á brott með skurðaðgerð getur hún að hluta til vaxið eða stækkað að nýju þótt nýi lifrarvefurinn verði aldrei eins og eðlilegur lifrarvefur.

Algengustu krabbamein sem fjarlægð eru með skurðaðgerð eru meinvörp frá krabbameini i ristli og endaþarmi og afmörkuð lifrarkrabbamein, þ.e. krabbamein sem eru upprunnin í lifrinni sjálfri. Síðarnefndu æxlin eru tiltölulega sjaldgæf á Íslandi. Skilyrði fyrir því að til greina komi að fjarlægja meinvörp ristil- eða endaþarmskrabbameins er að þau séu afmörkuð í lifrinni og meinvörp ekki til staðar annars staðar í líkamanum.

Tómas Guðbjartsson, sérfræðingur í almennum skurðlækningum og hjarta- og lungnaskurðlækningum, Brigham Harvard sjúkrahúsinu í Boston, Harvard Medical School.

Minnt er á að hjá Krabbameinsráðgjöfinni er hægt að fá ýmsar upplýsingar um krabbamein. Síminn er 800 40 40 kl. 15-17 virka daga. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir í tölvupósti: 8004040@krabb.is