Hnéspeglun: bólgur og vökvasöfnun

Spurning:

Sæl.

Ég fór í hnéspeglun á síðasti ári vegna liðþófans og eftir því sem ég veit var allt lagað. En það virðist bara alltaf vera eitthvað að ske, bólgur og vökvasöfnun. Ég hef reynt allt..„teipa",ís, hita, hlífar, hljóðbylgjur, „stim" og hvíld. Hvað get ég gert meira? Ég fór að vísu til læknis og hann sendir mig í MRI. Þetta er búið að vera svona í ár og ég er orðin frekar þreytt á þessu.

virðingarfyllst.

Svar:

Sæl.

Mér sýnist þú vera búin að reyna allar hefðbundnar leiðir en að vísu nefnir þú ekki hvers konar æfingar þú stundaðir eftir aðgerðina né hvernig álag hefur verið á hnéð síðan (íþróttaiðkun, erfið vinna o.s.frv.). Bólgur og vökvasöfnun í hnénu benda vissulega til að ekki er allt með felldu og það er sérstaklega mikilvægt að þú hvílir hnéð og hlífir því einmitt þegar sá fasi stendur yfir. Síðan verður að byrja þjálfun rólega stig af stigi og fá ráðleggingar hjá sjúkraþjálfara hvernig best er að styrkja vöðva umhverfis liðinn. Það má nefna að ef liðþófinn hefur verið fjarlægður þýðir það minni dempun í hnénu og sumum hefur gagnast að setja gelinnlegg í skó til að bæta þetta upp.

Engu að síður þar sem svo langt er um liðið frá aðgerð og ég hef á tilfinningunni að þú sért líka búin að reyna hefðbundið æfingaprógramm tel ég það mjög gott að læknirinn þinn sendir þig í MRI sem er afar nákvæm rannsókn og vonandi fæst þá einhver skýring.

Kveðja,
Sigþrúður Jónsdóttir, sjúkraþjálfari