Hæ, ég er búin að þjást af miklum höfuðverkjum á hverjum degi í marga mánuði og núna síðustu vikur hefur bæst mikil ógleði og uppköst við. Ég er búin að fara til læknis og fá lyf við mígreni en þar sem mígreni á ekki að vera svona stanslaust alla daga að þá efast ég um að það sé það sem er í gangi hjá mér. Verkurinn er vanalega ofarlega á enninu og við gagnaugað. Hvað gæti þetta verið?
Takk fyrir fyrirspurnina
Þegar höfuðverkir eru annars vegar er ansi margt sem getur komið til greina. Ég mun kasta fram nokkrum möguleikum en þar sem þetta er þess eðlis að erfitt er að greina gegnum netið mæli ég með að þú hittir aftur þinn heimilislækni og ræðir við hann þessi einkenni.
Spennu eða álagstengdur höfuðverkur en hann getur komið þegar fólk er undir mikilli streitu eða álagi. Hér getur hjálpað að taka verkjalyf eins og paratabs/panodil og eða ibufen.
Sínus-tengdur höfuðverkur en einkenni þess og mígrenis geta verið ansi lík. Einkenni sýkinga í ennis-og kinnholum geta verið þrýstingur, verkur eða eymsli yfir enni, kinnum og kringum augu, verkur versnar þegar lagst er niður eða hallað sér fram, stíflað nef, ógleði og jafnvel uppköst, ásamt fleiru. Ef þú hefur verið með kvef undanfarið eða hefur fengið ennis-og kinnholu sýkingar, mæli ég með að þú hittir háls,nef-og eyrnalækni.
Mígreni er hins vegar algeng ástæða bæði höfuðverkja og uppkasta en þar sem mígrenislyfið sem þú fékkst virkar ekki getur ástæðan verið að það sé einhvað annað en mígreni að valda þessu eða að þetta ákveðna lyf virkar ekki sem skyldi.
Einnig er þekkt að vöðvabólga getur valdið slæmum höfuðverkjum en þar sem þú ert einnig að kasta upp mæli ég með að þú hittir lækninn þinn.
Gott er að rifja upp síðustu mánuði og skoða hvort einhver breyting hafi átt sér stað í þínu lífi, til dæmis geta ýmis lyf valdið slíkum einkennum og kallast það aukaverkanir.
Vonandi kemur þetta að einhverju gagni
Með góðri kveðju,
Rebekka Ásmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur