Höfuðverkur

Fyrirspurn:

Höfuðverkur

Ég er búin að vera með höfuðverk í rúman mánuð í gagnauga og enni, var með stíflaðar kinn og ennisholur sem er búið að losa og fékk penisilín en höfuðverkurinn fer ekki. Er ég nú orðin ansi þreytt á að bryðja verkjatöflur. Ekkert kom út úr mynd sem tekin var hjá Háls,Nef of Eyrnalækni eftir að hreinsað var út. Hveð get ég nú gert?

með fyrirfram þökk

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er afar hvimleitt að lenda í ennis og kinnholustíflum eins og þú ert búin að reyna.

Það vantar svolítið af upplýsingum til að geta svarað þér en ég ætla að kasta fram nokkrum möguleikum.

Það er því miður alveg til í dæminu að þrátt fyrir pensillín og hreinsun geti áfram verið um bólgur að ræða og þá þarf stundum að nota steraspray í smá tíma til að ná þeim niður. Það fengir þú hjá HNE lækni.

Þú ert að nota verkjalyf en það kemur ekki fram hvaða lyf það eru. Ef þú ert að taka parkódín þá getur kódeinið valdið höfuðverki og um að gera að skipta því út til dæmis fyrir bólgueyðandi lyfi eins og íbúfeni.

Eins getur hreinlega verið að í öllum þessum vandræðum og verkjum sértu búin að koma þér upp vöðvabólgu sem veldur höfuðverk.

Ef ekkert af þessu passar mæli ég með því að þú heyrir í lækni til að útiloka að um aðra sjúkdóma geti verið að ræða

Vonandi kemur þetta þér að einhverju gagni

Með bestu kveðju

 

 

Guðrún Gyða

hjúkrunarfræðingur