Hormón í skrokknum og Lanzo á meðgöngu?

Spurning:
Góðan daginn.
Ég stefni á að verða ófrísk næsta vetur og mig langar til að spyrja ykkur hvað þið mælið með að ég hætti á pillunni löngu áður? Ég vil helst vera laus við alla ,,auka hormóna" úr kerfinu. Eins tek ég lyf sem heitir Lanzo (30 mg, 1 x dag). Magaopið á mér lokast ekki almennilega og ég hef prófað mörg lyf og Lanzo og Losec eru þau einu sem virka almennilega. Hvaða áhrif geta þau haft á fóstrið?
Með fyrirfram þökk

Svar:
Þú þarft engar áhyggjur að hafa vegna ,,auka hormóna" í kerfinu vegna pillunnar. Hormónamagnið í getnaðarvarnartöflum er það lítið að engin ástæða er til að óttast áhrif þeirra á fóstur. Þar fyrir utan skiljast efnin tiltölulega hratt úr líkamanum þannig að lítið sem ekkert er eftir að nokkrum dögum liðnum. Þú getur því óhrædd klárað þinn pilluskammt og byrjað að reyna að verða ófrísk strax við næsta egglos.
Þar sem ekki liggja fyrir nægilegar rannsóknir á notkun Lanzo á meðgöngutíma er ekki mælt með notkuninni þó svo að dýratilraunir gefi enga vísbendingu um að það hafi nein óæskileg áhrif á fóstur. Aftur á móti eru til nægilegar rannsóknir á Losec Mups til að útiloka áhrif þess á fóstur.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson,
lyfjafræðingur