Hormónalykkjan – upplýsingar

Spurning:

Komið þið sæl.

Ég er 28 ára tveggja barna móðir og er búin að vera með hormónalykkjuna í rúmt ár núna. Ég tel mig ekkert finna neitt fyrir henni og hún angrar manninn minn ekkert. Það sem hrjáir mig mest er það að ég fer ekkert á blæðingar og er því oft móðursjúk og tek þungunarpróf reglulega, vegna þess að mér finnst ég alltaf vera með óléttueinkenni. Ég gæti sofið allann daginn, skapsveiflur, hitakóf og kuldaköst á víxl. Eymsli í brjóstum og meira að segja þegar ég sé mæður gefa börnum sínum brjóst kemur ljós vökvi úr brjóstunum. Tíð þvaglát og fleira og fleira. Er ég að tapa vitinu eða eru þetta einkenni sem geta stafað út frá hormónalykkjunni?

Það er rétt að nefna það að ég er slæm af psoriasisgigt og er á lyfi sem heitir Methotrexate. Ég hef farið reglulega í blóðprufur tengt því og ekkert óeðlilegt kemur þar fram. Ég tek með því fólínsýru og tek á hverjum degi heilsutvennu. Ég er ekki með sykursýki heldur. Ég er orðin ansi þreytt á þessu og ég stunda útiveru (vinn á leikskóla) þannig að það er ekki eins og ég liggi uppi í rúmi allan daginn og láti mér leiðast. Síður en svo, ég er einnig í námi í Kennaraháskólanum.

Ef þið hafið einhverja skýringu á þessu endilega látið mig vita. Ef hormónalykkjan getur sett mig af stað í tíðarhvörf hvað ráðleggið þið mér að gera? Er nokkuð tímabært fyrir mig 28 ára að hætta barneignum?

Kærar kveðjur,
Ein voða þreytt.

Svar:

Sæl.

Í fyrsta lagi hefur þú ekki verið upplýst nægilega, eða ekki tekið rétt eftir, áður en þú fékkst lykkjuna. Það er hámarks árangur og „allra best“ þegar blæðingar hætta. Þú ert samt ekkert á breytingaraldri heldur í fullum blóma áfram. Hormónalykkjan skaðar á engan hátt frjósemi þína en Methotrexatið er ekki eins hollt. Ef þú hefur ekki haft blæðingar í þrjá mánuði og neikvætt þungunarpróf, þarftu ekki að gera fleiri próf heldur gleðjast yfir því að hafa svona góða vörn.

Þú getur fengið brjóstaspennu af lykkjunni og eitthvað þyngst auk höfuðverkjar. En eins og þú lýsir einkennum þínum, hita, hroll, kvíða o.fl., tel ég að þú þurfir að ræða við lækni svona til að skýra og eyða áhyggjum og kvíða sem ekki hefði þurft að koma til ef „rétt hefði verið gefið í byrjun“.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr. med.