Hrædd um að dóttir mín lendi í einelti

Spurning:

Komdu sæl

Á síðasta ári skildum við hjónin og var sá skilnaður vægast sagt mjög erfiður. Við eigum tvö börn og hefur 10 ára dóttir okkar tekið þessum breytingum afar illa. Að eðlisfari er hún félagslynd og opin en virðist nú mun óöruggari með sig og talar um að krakkarnir í skólanum séu að stríða sér. Ég er svo hrædd um að þetta haldi áfram nú þegar hún er að byrja aftur í skólanum og þetta endi í einhvers konar einelti. Getur þú gefið mér einhver ráð hvernig ég get aðstoðað hana við að ná aftur áttum og að koma sjálfsálitinu í samt horf. Ég hef ekki tekið eftir því sjálf en vinkona mín hefur bent mér á að henni finnist dóttir mín oft vorkenna mér.

Áhyggjufull móðir

Svar:

Komdu sæl og þakka þér fyrirspurnina.

Ég ráðlegg þér að hafa samband við bekkjarkennara dóttur þinnar. Segðu henni frá þessum áhyggjum þínum og þeim tildrögum sem þú nefnir í bréfinu. Ef þú biður kennarann, þá er ég viss um að hún er fús til að fylgjast með því hvort dóttur þinni líði ekki vel og hvort einhver viðloðandi stríðni sé í gangi. E.t.v. væri hún einnig til í að vinna sérstaklega með bekknum í viðfangsefnum sem lúta að samskiptum, vináttu, samheldni og góðum bekkjaranda. Þú og kennarinn gætuð svo komið ykkur saman um að þú heyrðir í henni/honum hljóðið öðru hverju og fengir að fylgjast með hvernig miðaði í skólanum.

Ef þið hefjist handa núna þegar skólinn byrjar, þá er ólíklegt að málið vindi upp á sig og þróist í það sem í dag er kallað einelti.

Nú segir þú að dóttir þín sé 10 ára gömul. Þú lýstir henni ekki nánar, en verið getur að aukin viðkvæmni hennar fylgi því að hún fer að breytast úr barni í ungling.

Hluti af því að verða fullorðin(n) er að leiða hjá sér margvíslegt álag og áreitni annarra og láta ekki særa sig of auðveldlega. Samhliða öðrum aðgerðum skaltu reyna að stappa í hana stálinu og fá hana til að finna með þér hvað best er fyrir hana að gera þegar henni finnst að skólafélagarnir stríði henni. Oft gerist það að þolandinn viðheldur stríðninni með viðbrögðum sínum. Ræður hún við það að bugast ekki, eða hlaupa ekki upp á nef sér þegar hún er áreitt, en gera þess í stað eitthvað annað, s.s. að ganga í burtu og snúa sér að öðrum krökkum og leika við þau? Hafi hún verið félagslynd eins og þú minnist á, þá er líklegt að hún eigi enn einhverjar vinkonur sem hún getur frekar varið tíma sínum með.

Nú veit ég ekki hvernig samband ykkar mæðgnanna er né hvernig þér líður sjálfri eða staða þín er eftir þær breytingar sem orðnar eru á högum ykkar.

En stundum kemur það fyrir að fullorðið fólk ræðir mikið og náið við börnin sín og leitar samúðar þeirra. Þetta eru þá ýmis mjög persónuleg mál og jafnvel kvartanir t.d. vegna breyttrar fjárhagsstöðu.

Barnið lendir þannig í hlutverki fullorðins einstaklings eins og maka og tekur á sig ýmsar áhyggjur fyrir hönd hinna fullorðnu. E.t.v. gerist þetta einmitt þegar maki uppfyllir ekki einhverjar félagslegar og tilfinningalegar væntingar, eða er ekki lengur til staðar.

Ef þetta er raunin, þá getur þú fengið dóttur þína í lið með þér og beðið hana að láta þig vita þegar henni finnst umræðuefnið vera á þessum nótunum. Á móti, skiptir þú strax um umræðuefni nema í allra nauðsynlegustu tilvikum. Fólki gefst oft vel að einbeita sér sérstaklega að því að að tala um eitthvað annað, svo sem að segja barninu frá einhverju skemmtilegu sem hefur hent nýlega eða maður er að spá í að gera, rifja upp ljúfar sögur úr eigin bernsku sem krökkum finnst yfirleitt mjög gaman að heyra, og síðast en ekki síst að sýna áhuga á því sem barnið er að fást við og inna það eftir því sem á daga þess hefur drifið.
Síðan gætir þú einnig fengið vinkonu þína í lið með þér og beðið hana um fylgjast með því hvort meint vorkunsemi dóttur þinnar í þinn garð fari ekki dvínandi.

Ekki er ólíklegt að sjálfsöryggi barnsins vaxi samhliða þessum breytingum.

Hvort sem þér finnst að þetta eigi við í ykkar tilviki eða ekki, þá hjálpar það henni örugglega ef þú hrósar henni fyrir það sem hún gerir jafnvel fyrir sjálfsagða hluti, og ef hún er á réttri leið jafnvel þótt þér finnist hún ekki gera þá alveg eins vel og þú vildir. Þegar þið eruð komnar í gang með þetta, þá getur þú farið að smáauka kröfurnar.

Ef þú telur að þú hrósir henni þegar mikið, prófaðu þá að auka við það þ.e. að fjölga tilvikunum, og með því að bregðast STRAX við því sem þú hrósar henni fyrir. Segðu henni einnig fyrir hvað þú ert að hrósa henni, en það er væntanlega eitthvað sem þú vilt sjá meira af í fari hennar.

Að lokum:

Hverjar svo sem ástæðurnar
eru fyrir auknu óöryggi dóttur þinnar, þá er ekki víst að þú getir haft bein áhrif á þær. Hins vegar er alveg víst að ef þú ert sjálf jákvæð og bjartsýn, varpar ekki óþarfa ábyrgð á herðar henni, vinnur þétt með kennaranum hennar og gefur henni af tíma þínum til notalegrar samveru og hrósar henni, þá mun henni líða betur og öryggi hennar aukast að sama skapi.

Gangi ykkur vel,
Guðríður Adda Ragnarsdóttir, atferlisfræðingur