Hrædd um að geta ekki stjórnað mér?

Spurning:
Komiði sæl.
Ég á við svolítið stórt vandamál að glíma. Ég hef verið að glíma við þunglyndi, kvíða og guð má vita hvað síðan ég var 14 ára gömul. Nú er ég 22 ára og síðustu mánuði hef ég verið alveg ágæt en fyrir þann tíma grét ég mig í svefn af engri sýnilegri ástæðu. Það sem ég þarf að gera er að halda mér í formi, hreyfa mig mikið og hafa alltaf eitthvað að gera, þá næ ég að vera nokkuð góð. En nú hefur það komið upp á þessu ,,góða" tímabili mínu að ég dett gjörsamlega niður í svarthol og þá er ég farin að hugsa um hvernig ég frem sjálfsmorðið og er nokkuð hrædd um að einn daginn nái ég ekki að stjórna mér. En ég næ að yfirstíga þann dag með herkjum, svo næsta dag er ég orðinn jafn kát aftur. Ég veit ekki hvað er að mér ég hef verið greind með allskonar sjúkdóma, allt frá geðhvörfum til þunglyndis til kvíðaröskunar. Ég er desperat, það virkar ekkert á mig og ég veit ekki hvað ég á að gera. Getið þið leiðbeint mér eitthvað. Með fyrirfram þökkum

Svar:

Sæl.
Það er ekki gott að þú sért komin það langt niður að þú sért að íhuga sjálfsvíg. Í bréfi þínu talar þú um að hafa fengið mismunandi greiningar. Slíkt er algengt og fylgir t.d. kvíði oft þunglyndi. Ekki veit ég hvar þú fékkst þessar greiningar en mér sýnist ástandið nú vera þannig að þú þurfir að leita þér aðstoðar. Þá mæli ég með að þú ræðir við þann aðila sem hefur séð um þessar greiningar. Mikilvægt er að ef þú ert með geðhvarfasjúkdóm að þú sért undir eftirliti geðlæknis og þá hugsanlega á lyfjum við því. Sálfræðimeðferð (hugræn atferlismeðferð) hefur virkað vel á bæði þunglyndi og kvíða. Oft þarf þó að grípa til lyfjameðferðar og sérstaklega ef fólk er orðið alvarlega veikt. Ég mæli alla vega með að þú pantir þér tíma hjá geðlækni sem fyrst.
Gangi þér vel.

Brynjar Emilsson sálfræðingur