Fyrirspurn:
Daginn, langar að varpa einni spurningu.
Ég er með of hraðan hjartslátt sem er líklega vegna langvarandi kvíða þó ég sé ekki kvíðinn í dag, enda fer það eftir aðstæðum. Ég er með athyglisbrest og er á lyfinu strattera sem inniheldur þá aukaverkun að það er aukinn hjartsláttur, einnig er ég á concerta. Ég tek samt meira af strattera. Þegar ég fer í fótbolta þá fer hjartað á milljón.
Getur það ekki verið ástæðan afhverju ég er alveg dauður eftir einn sprett?
Og ég meina er það holt að vera fyrirfram með hraðan hjartslátt og vera hent á lyf sem eykur hann enn meira, ég fæ alltaf velgju og hausverk og þarf liggur við að æla…
Svo þegar ég fer á própanól(Betablocker) þá kasta ég upp. Er þetta holt að vera á þessu lyfi?
Og hvað þá að vera á própanóli sem hægir á adrenalín flæðinu sem gerir það að hjartað er samt sem áður alltaf að reyna slá hratt þegar ég stunda íþróttir…
Að gefa manni sem er með háan blóðþrýsting og mikinn hjartslátt strattera er einsog að gefa óvirkum alkóhólista brennivín því honum líður illa. Getur þú svarað þessu eða er ég að fara með rangt mál?
Kær kveðja,
Aldur:
22
Kyn:
Karlmaður
Svar:
Það er ekki bannað að nota strattera fyrir þá sem eru með hraðan hjartslátt fyrir. Hins vegar ber að gæta varúðar við notkun lyfsins hjá þeim sem er hætt við hjartsláttaróreglu eða hraðtakti. Það er alveg mögulegt að lyfið valdi meira hjartsláttarsvörun við áreynslu og þar með að þú upplifir meiri mæði. Þetta er atriði sem þú þarft að ræða við þann lækni sem stýrir meðferðinni, sérstaklega ef þér verður ómótt af notkun lyfsins. Hafir þú ekki farið í hjartalínurit áður en meðferð hófst með strattera ættirðu að vera í sambandi við lækninn þinn og fá slíka rannsókn gerða, það er gott að athuga með svokallað QT bil áður en meðferð hefst. Eins þarf að fylgjast með blóðþrýstingi og púlsi meðan strattera er notað.
Beta blokkerar eins og propranolol hægja á hjartslætti. Það getur valdið því að hámarksáreynsluþol verði eitthvað minna en annars. Það er hins vegar ekki hættulegt að reyna á sig þó svo að maður noti propranolol eða aðra beta blokkera.
Kveðja
Gunnlaugur Sigurjónsson
Læknir Heilsuverndarstöðinni