Hrein kúamjólk á meðgöngu?

Spurning:
Þannig er að ég er mjög viðkvæm í maganum fyrir mjólkurmat og fæ einnig höfuðverk ef ég borða einhvern mjólkurmat. En það virðist vera í lagi ef eg drekk hreina kúamjólk. En ég var að hafa áhyggjar af hvort að hún hafi einhver áhrif á barnið (ég er komin 34 vikur svo ég kalla það barn ekki fóstur) af því að hún er ógerilsneidd. Er eitthvað hægt að líkja því við osta og þ.h. sem eru ógerilsneiddir? Ljósmóðirin sem ég er hjá segir þetta vera það besta fyrir mann. Hvað er til í því?

Svar:
Þegar þú talar um hreina mjólk reikna ég með að þú eigir við mjólkina beint úr mjólkurkælinum í fjósinu. Sú mjólk er ekki gerilsneydd en sé um almennilegt fjós að ræða er lítið gerlainnihald í mjólkinni og ekki miklar líkur á að nokkuð slæmt geti verið í mjólk sem safnað er úr mörgum kúm undir því stranga eftirliti sem haft er með mjólk frá mjólkurseljendum. Sú baktería sem aðallega er verið að hafa áhyggjur af í ógerilsneiddum ostum er Listeria. Hún nær að vaxa í ógerilsneyddum ostum í því langa vinnsluferli sem ostar þurfa. Mjólkin nær ekki að gerjast á þennan hátt og því ætti að vera óhætt að drekka mjólkina "beint" úr hraustum kúnum í sveitinni.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir