Fyrirspurn:
Góðan daginn.
Ég eignaðist dreng fyrir rúmum 3 vikum síðan. Hann var mjög stór svo að ég lenti í svolitlum saumaskap. Það hefur allt gengið vel með það, s.s. engin óbærileg óþægindi sem hafa fylgt því.
Mig langaði að spyrja í sambandi við túrtappa – hversu langur tími á/þarf að líða þar til manni er óhætt að fara að nota þá aftur ? Hreinsunin hefur alveg verið eðlileg hjá mér.
Eitt annað sem mig langaði að spyrja um – ég er farin að þurfa að gefa drengnum ábót við brjóstamjólkina þar sem hann þarf meira en ég mjólka.
Hann fær SMA þurrmjólk, og hún fer vel í hann. Það sem að ég er að spá er með blönduna á mjólkinni – ég er búin að vera að blanda skammtinn sem er sagður fyrir 2 vikna, eða 4.3 kg. Drengurinn er rúmlega 5 kíló (5,2 í síðustu viktun), þó hann sé ekki nema rétt rúmlega 3ja vikna. Ætti ég frekar að blanda handa honum skammtinn fyrir 2ja mánaða, sem er þá sagður fyrir börn ca. 4.7 kíló ? Hann fær þessa ábót eftir hverja brjóstagjöf.
Með kærri fyrirfram þökk fyrir svarið.
Sæl og til hamingju með drenginn þinn !
Ég myndir ráðleggja þér að sleppa því að nota túrtappa núna á meðan hreinsunin klárast, það er alltaf töluverð sýkingarhætta á meðan allt er að gróa bæði saumaskapurinn og sárið í leginu eftir fylgjuna. Svo ættirðu að fá einhverja pásu á blæðingum amk. á meðan þú ert með hann á brjósti (þó það sé bara að hluta á meðan það er nokkuð þétt og reglulega yfir sólahringinn). Þegar þú byrjar svo aftur á blæðingum er þér alveg óhætt að nota túrtappana aftur.
Í sambandi við þurrmjólkina þá er hlutfall vatns og þurrmjólkurduftsins alltaf það sama – þú sérð það þegar þú skoðar leiðbeiningarnar utan á – blöndunin er alltaf af sama styrkleika sem er það sem skiptir máli , það er bara magnið sem er mismunandi. Þannig að þér er alveg óhætt að blanda fyrir tveggja mánaða og þú getur alveg blandað svolítið magn í einu og svo geturðu geymt það í ísskáp í 24 tíma. Haltu svo bara áfram að leggja hann á brjóstið fyrst og bættu svo ábótinni við á eftir þannig að þú haldið mjólkinni eða á meðan þú getur það.
Gangi þér vel
Kristín Svala Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir