Hreyfi mig mikið en maginn minnkar ekkert?

Spurning:
Bréf til Ágústu, sæl ég hef spurningu fyrir þig: Ég geng að minnsta kosti 2 1/2 tíma á dag og geng rösklega, drekk töluvert af vatni, borða morgunmat, reyni að borða reglulega yfir daginn, en ég borða ekki sælgæti og hef minnkað kók drykkjuna umtalsvert. Þá kemur spurninginn magin á mér minnkar ekki neitt? Og ég verð að lýsa honum sem töluvert stórum um sig hvað er málið. Ég veit að það eru ekki til töfralausnir á neinu en þessar gönguferðir er ég búin að stunda ca. 12 mánuði og af krafti í svona 7-8 mánuði einhverstaðar las ég það að það sé betra að grennast hægt ég sætti mig fullkomnlega við það. En það er ekki málið er hægt að gera einhverjar æfingar með magan svo að ég sjái einhvern árangur, svona hvetjandi dæmi?

Svar:
Til að losna við líkamsfitu þurfum við að brenna fleiri hitaeiningum en við neytum. Það er hugsanlegt að líkami þinn sé orðinn vanur því álagi sem hann fær af gönguferðum þínum og það lítur út fyrir að þú sért að borða jafnmargar hitaeiningar og líkami þinn brennir. Til að brenna meiri fitu þarft þú því að koma líkama þínum á óvart með því að stunda öðruvísi þjálfun og e.t.v. reyna meira á þig. Þú gefur litlar upplýsingar í bréfi þínu svo það er dálítið erfitt að ráðleggja þér. Ég veit t.d. ekki hve langt þú ert frá kjörþyngd og hvað þú borðar ca. margar he. á dag. E.t.v. getur þú gert frekari breytingar á mataræði þínu t.d. minnkað aðeins skammtana? Ég myndi ráðleggja þér að gera styrktaræfingar fyrir alla helstu vöðvahópa líkamans 2-3x í viku. Þannig eykur þú grunnbrennslu líkamans og brennir fleiri hitaeiningum á sólarhring. Líkaminn brennir ekki fitu staðbundið þannig að sama hve margar kviðvöðvaæfingar þú gerir þú munt ekki brenna fitunni af því svæði með þeim hætti. Haltu áfram að ganga og gakktu af enn meiri krafti svo þú mæðist talsvert. Stundaðu fjölbreyttar styrktaræfingar 2-3x í viku s.s. hnébeygjur, armbeygjur, kviðæfingar svo eitthvað sé nefnt. Ég hef gefið út myndband "Líkamsrækt" með styrktaræfingum sem myndi henta vel með gönguferðunum ef þú vilt æfa heima.

Þú getur pantað myndbandið á hreyfing@hreyfing.is

Gangi þér vel, kv. Ágústa Johnson