Spurning:
Mig langar til þess að vita hvenær er eðlilegt finna hreyfingar hjá fóstri?
Er það áhyggjuefni ef ekki hafa fundist hreyfingar við 19.-20. viku?
Kveðja.
Svar:
Sæl.
Algengast er að konur fari að finna fyrir hreyfingum fóstursins við 18.-20. viku meðgöngu. Það er þó töluvert undir því komið hvar fylgjan er staðsett hversu kröftugar hreyfingar finnast. Ef fylgjan er á framvegg legsins finnast hreyfingar yfirleitt minna til að byrja með því fylgjan virkar þá eins og koddi milli barnsins og legveggsins. Svo er líka einstaklingsbundið hversu mikið fóstrin hreyfa sig. Bíddu í eina til tvær vikur og sjáðu hvort þú finnur ekki fyrir fósturhreyfingum. Talaðu annars við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir