Hrotur barna?

Spurning:
Heiðraði Doktor.
Ég heyrði í kvöldfréttum ríkisútvarpsins að hrotur barna gætu komið í veg fyrir eðlilega námsframför þegar að skólagöngu kæmi. Ég á dótturson á fjórða ári sem hrýtur og hefur alltaf sofið órólega og vaknað upp bæði að kvöldi og nóttu. Nú langar mig til að spyrja um eftirfarandi:
1. Er eitthvað til ráða við hrotum barna?
2. Hvað orsakar hrotur hjá börnum?(í mínu tilviki er búið að taka nefkirtla).
3. Geta hrotur haft einhverjar aðrar neikvæðar afleiðingar en erfiðleika með nám?
4. Tengjast hrotur að einhverju leyti bakflæði?

Með fyrirfram þakklæti

Svar:
Komdu sæl amma.
Ég er enginn sérfræðingur í hrotum og get þess vegna ekki svarað þessum spurningum. Ég vil ráðleggja þér að fara með barnið til góðs háls- nef- og eyrnalæknis. Hákon Hákonarson barnalæknir er helsti sérfræðingurinn í þessu en hann er því miður ekki með stofu núna, en hugsanlegt er að annar HNE læknir gæti komið þér til hans. Bakflæði getur tengst hósta að nóttu og astma en ég hef ekki heyrt að það tengdist hrotum það getur þó vel verið. Það er líka spurnig hvað þú átt við með hrotum. Er eins og barninu sé að svelgjast á eða hvernig er þetta, það þarf líka að spyrja hvenær þetta byrjar á næturnar o.fl. Sem sagt, ég mæli því með því að fara til læknis sem er sérfræðingur í þessu. Ég hlustaði því miður ekki á fréttirnar sem vitnað er í þannig að ég veit ekki hvað var rætt um.

Með góðri kveðju,

Hjúkrunarfræðingur
www.Doktor.is