Húðblæðing.

Hvers vegna kemur húðblæðing?

Góðan daginn og takk fyrir fyrirspurnina

Húðin er stærsta líffæri mannslíkamans og geta því komið fram ýmis merki um sjúkdóma á henni. Hlutverk húðarinar er að vernda okkur fyrir utanaðkomandi áreiti. Það geta því verið ýmsar ástæður fyrir húðblæðingum en þær eru oftast tilkomnar vegna þess að æðar sem liggja grunnt undir húðinni springa og mynda þá litla rauða depla á húðinni og/eða stóra fjólubláa bletti sem líkjast mari. Þegar þessar æðar springa leitar blóðið út og kemst undir húðina og myndar þannig þessar litabreytingar sem við sjáum á húðinni. Ástæðurnar fyrir húðblæðingum geta verið vegna mikilrar áreynslu (við uppköst, mikinn grát, sterkann hósta, kröftugar æfingar o.s.frv.), áverka, sumra lyfja (t.d. blóðþynnandi) eða alvarlegra sjúkdóma.

Yfirleitt jafna þessar húðblæðingar sig á örfáum dögum, en ef þær eru að koma upp endurtekið, eða eru lengur en tvær vikur, er ráðlagt að leita til heimilislæknis á heilsugæslu til frekari rannsókna.  Einnig ef blæðingar eru að koma algjörlega af ástæðulausu, og ekkert ofantalið gæti tengst, skaltu leita sem fyrst til læknis.

Með kveðju,

Rakel Ösp Óskarsdóttir, hjúkrunarfræðingur