Húðblettir

Sæl. Ég er 55 ára og er komin með svona freknubletti á handleggina og einhverja á andlitið, eru þetta öldrunarblettir og er ég ekki of „ung“ til að fá þá ?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Öldrunarblettir geta byrjað að birtast við fimmtugsaldurinn og jafnvel fyrr hjá þeim sem eru mjög mikið í sól.  Blettir koma helst fram þar sem sólin skín mest á sem eru hendur,andlit og axlir.  Þessir blettir eru hættulausir og ekkert gert við þeim en lýtalæknar og húðfegrunarstöðvar geta dregið úr lit á blettum með lasermeðferð. Annars er að takmarka sól á þessa viðkvæmu staði og nota vel af sólarvörn til að hægja á myndun bletta.

Gera þarf greinarmun á öldrunarblettum og fæðingablettum sem eru að breytast í útliti.  Ef þú ert ekki viss hvort er um að ræða skaltu fara til læknis til að skera úr um það.

Með kveðju

Guðrún Ólafsdóttir

Hjúkrunarfræðingur