Hugleiðingar um sambönd, kynlíf og hvað það er sem dregur fólk að hverju öðru

Spurning:

Sæll Sigtryggur.

Ég var í hópi góðra vina og við vorum að tala um sambönd, kynlíf og hvað það væri sem drægi fólk að hverju öðru. Það kom náttúrulega margt upp á borðið en við vorum að velta því fyrir okkur með verndartilfinninguna, svona sálfræðilega hlið kynlífsins, það er að segja hvort það er rétt að stelpur séu að leita að vernd og strákar að því að vernda. Við vorum nokkur í hóp og mér fannst það merkilegt að við vorum öll að tala um líkamshitann og í grófum dráttum þá vorum við sammála um það að stelpur eru yfirleitt kaldari en strákar það er að segja að strákunum finnst okkur stelpunum yfirleitt vera svo kalt og þeim finnst þeir vera að hlýja okkur þegar þeir halda utan um okkur. Við stelpurnar vorum nokkurn veginn sammála þessu því okkur finnst mjög gott að finna hvað strákunum er hlýtt.

Svo vorum við að tala um að það væri mjög gott þegar strákarnir væru stærri en við, ekki að það skipti öllu máli en það væri samt svona einhvernveginn notalegt, strákunum fannst gott að stelpurnar væru með minni hendur, við stelpurnar töluðum um að það væri gott að þeir væru hærri en við.

Þetta hljómar svolítið eins og íhaldssöm ímynd en við vorum sammála um að hún væri svolítið sönn og sígild. En það sem mig langaði að vita er hvort það sé eitthvað til í þessu, að þetta spili inní þegar við leitum okkur að maka eða hvort þetta sé bara hrokafull ímynd sem hefur sett sitt mark á menninguna og okkar fordóma.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Það er gott að heyra að umræða um kynlíf verður nú æ algengari og opnari. Slík umræða dregur úr fordómum og eykur líkur á að sérhver einstaklingur uppgötvi að hann á rétt á því að njóta góðs kynlífs.

Varðandi þessa hugmynd um verndartilfinninguna, þá held ég að þið hafið rétt fyrir ykkur að því leyti að margir karlmenn leiti eftir því að vera verndandi og að margar konur leiti eftir vernd í tengslum við kynlíf. Þetta er hins vegar alls ekki einhlítt og engar líffræðilegar forsendur fyrir þessu. Miklu fremur að þetta tengist uppeldislegum og umhverfislegum áhrifum. Líklega er hér um að ræða gamalgróna hlutverkaskiptingu milli kynjanna, sem endurspeglast í kynlífinu. Þ.e. að karlmaðurinn leiti eftir því hlutverki að vera sá stærri og sterkari, sem hægt er að leita til og treysta á og að konan leiti eftir því hlutverki að láta hlúa að sér. Þetta kemur einnig fram í umræðu þinni um stærð kynjanna.

Einstaklingur, sem er mjög aktívur í kynlífi, hreyfir sig mikið, örvast mikið kynferðislega, er stjórnandi og gerandi, örvar blóðrás sína mjög mikið og honum verður hlýtt. Hinn, sem er óvirkur og örvast minna kynferðislega, örvar blóðrás sína minna og verður kaldara. Þetta þýðir ekki endilega að þú sért að tala um konur, sem séu mjög óvirkir þátttakendur í kynlífinu, heldur öllu fremur að þær séu óvirkari en mennirnir þeirra og þar með finna þær fyrir því að þeim er hlýrra. Þ.e. báðum hlýnar, en mönnunum meira.

Í kynlífi, þar sem báðir aðilar eru mjög virkir, verður hamagangurinn og orkan meiri og báðum aðilum hlýnar mjög mikið. Það er alls ekki óalgengt að báðir aðilar svitni og báðum verði mjög hlýtt.

Mikill hamagangur í kynlífi er hins vegar ekki endilega forsenda þess að njóta þess vel. Það er vel hægt að njóta kynlífs án þess að hafa mikil læti, en segja má að niðurstaðan sé sú, að þeim mun meiri virkni í kynlífinu, þeim mun meira örvast blóðrásin og þeim mun meira hækkar líkamshitinn. Vafalaust má skoða þetta betur út frá líffræðilegum forsendum, því þetta er tiltölulega einföld mynd sem ég dreg hér upp til skýringar.

Það, hvort þetta hefur áhrif á makaval er því persónubundið. Erum við að leita eftir því að fá hlutverk í lífinu í gegnum það að vernda aðra eða að vera vernduð eða gerum við kröfur um að fá að vera í báðum hlutverkum, allt eftir þörf hverju sinni. Geta leitað til maka okkar þegar eitthvað bjátar á, en geta verið styrkur fyrir makann þegar hann á í erfiðleikum. Séum við að leita eftir því að vernda, leitum við að maka sem hefur þörf fyrir vernd og öfugt. Ef við hins vegar gerum kröfu um að fá að vera í báðum hlutverkum, allt eftir líðan, leitum við að maka, sem gerir slíkt hið sama og getur staðið undir því.

Gangi ykkur vel í áframhaldandi umræðum um lífið og tilveruna.

Kveðja,
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur