Hugsa illa um tennurnar og þori ekki til tannlæknis

Spurning:

Sæl.

Ég er 34 ára og fékk mér postulínstennur þegar ég var 16 ára. Þetta eru 6 framtennur í efri góm. Ég hef ekki hugsað vel um þær og nú eru þær farnar að síga um 1 cm.

Hinar tennurnar mínar eru hrikalegar ljótar og illa farnar. Það sem hefur plagað mig öll þessi ár, er að ég kúgast svo mikið þegar ég er að tannbursta mig, og því hef ég bara flýtt mér og gert það illa. Ef ég er t.d. með tyggjó eða sleikjó kúgast ég bara. Sumir læknar segja að þetta sé eitthvað sálrænt. Ég hef ekki farið til tannlæknis í mörg mörg ár, ég bara þori því ekki. Mér líður ekki vel út af þessu, ég passa mig á því að brosa ekki, ég hlæ sjaldan því ég vil ekki að fólk sjái í mér tennurnar.

Ég veit að ef ég fæ hjálp þá mun mér líða miklu betur. Ég er orðin leið á því að öfundast yfir hve aðrir hafa fallegar tennur. Sjálf langar mig í allt nýtt í munninn á mér. Er hægt að taka mínar postulínstennur og setja þær aftur í? Með hverju mælir þú? Hvað kostar að láta endurnýja í sér munninn? Hvernig gengur þetta fyrir sig? Hvað tekur þetta langan tíma? Ég veit að þetta eru margar spurningar, en ég verð að fá hjálp.

þetta er fyrsta skrefið hjá mér að leita aðstoðar.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Af orðum þínum að dæma virðist sem þú þarfnist aðstoðar góðra manna/kvenna til þess að sigrast á ótta þínum áður en mikið annað yrði fyrir þig gert. Ef þú ert ekki með neinn tannlækni í takinu gætirðu byrjað á því að fá holl ráð í tannlæknadeild Háskóla Íslands en það gæti þó ekki orðið fyrr en í lok september – móttaka í síma 525-4850.

Óséð er til lítils að fara neinum orðum um kostnað þessara aðgerða. Snúðu þér til tannlæknis eða tannlækna og fáðu álit og áætlun um aðgerðir, tíma og kostnað.

Gangi þér vel,
Ólafur Höskuldsson, tannlæknir