Húðslípun?

Spurning:

30 ára – kona

Hæ, ég er nýkomin úr húðslípun hjá lækni en ég fékk engar upplýsingar um

hvort ég mætti fara í sólbað eða hvernig vörn ég ætti þá að nota. hversu

lengi er húin að jafna sig eftir húðslípun?

Takk fyrir.

Svar:

Ágæta kona.

Samkvæmt mínum heimildum er húðslípun þegar efsta lag húðarinnar er fjarlægt og eftir verður mjög grunnt sár sem grær án öra. Læknirinn getur stýrt dýpt sársins sem myndast. Venjulega er þetta gert í einhverri deyfingu en þegar hún fer, finnur viðkomandi fyrir brunatilfinningu í húðinni en sú tilfinning hverfur venjulegast eftir u.þ.b. sólarhring. Fyrstu tvo dagana eða svo getur vessað aðeins úr sárinu en það er eðlilegt. Það tekur húðina 5-7 daga að jafna sig. Fyrst eftir að húðin grær er hún bleik á lit en smátt og smátt tekur hún á sig eðlilegan lit en það getur tekið nokkra mánuði.

Það er óæskilegt að láta sólina skína á aðgerðarsvæðið of fljótt því það getur valdið óeðlilegum roða eða því að litarefnið missest sem veldur því að brúnir flekkir myndast. Því er mælt með að nota góða sólvörn (sunblock) fyrsta hálfa árið eftir aðgerðina. Einnig er mælt með því að nota gott rakakrem.

Ég fann engar góðar heimildir um húðslípun á íslensku en ef þú lest ensku getur þú fundið heilmikinn fróðleik um þessa aðgerð undir leitarorðinu "dermabrasio"

Gangi þér vel og ég vona að aðgerðin verði árangursrík.

Kær kveðja,

Þórgunnur Hjaltadóttir

hjúkrunarfræðingur og ritstjóri doktor.is