Húðvandamál eftir fósturmissi?

Spurning:
Þannig er mál með vexti að í nóv. sl. missti ég 3 mán. fóstur. Eftir það hefur mér ekki enn tekist að verða ólétt. Á þessari stuttu meðgöngu minni steyptist ég út í bólum sem mér skilst að sé eðlilegt. Aftur á móti finnst mér ekki eðlilegt að það vandamál sé enn að hrjá mig! Getur verið að það sé svona mikið hormóna-ójafnvægi hjá mér eftir fósturmissinn? Þess má geta að fyrir 6 árum eignaðist ég mitt fyrsta og eina barn og þá var ekkert svona að hrjá mig. Ég fór í skoðun hjá kvensjúkdómalækni í jan. sl. og hann sagði mér að ég væri líkamlega tilbúin að verða ólétt. Samt hef ég ekki haft blæðingar síðan ég missti fóstrið – bara örlitla brúna útferð sem stendur stutt yfir.

Kveðja

Svar:
Húðvandamál sem koma á meðgöngu minnka yfirleitt og hverfa um leið og meðgöngunni lýkur. Sért þú ekki að taka nein hormónalyf ættir þú að hafa eðlilegar blæðingar 4 – 6 vikum eftir fósturlát. Það er spurning hvort hormónarnir séu eitthvað að stríða og því fyndist mér að þú ættir að láta lækninn endurmeta stöðuna fljótlega eða fá álit annars læknis.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir