Hvað er liðskrið

Hvað er liðskrið alvarlegt?

Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurnina

Liðskrið (e.spondylolisthesis) er gliðnun sem verður í hryggjarlið, oftast neðarlega í hryggnum. Liðskrið getur verið galli í öðrum hvorum eða báðum væng/jum hryggjarliðs eða brot sem veldur því að hryggjarliðurinn rennur aftur á bak, fram fyrir eða yfir beinið sem er fyrir neðan.

Margar ástæður geta verið fyrir liðskriði. Hryggjarliður getur verið gallaður frá fæðingu, eða hryggjarliður hefur brotnað vegna áverka eða mikils álags. Einnig getur sýking eða sjúkdómur skemmt hryggjarliði. Þetta getur komið fyrir einstaklinga sem stunda mikið íþróttir, -sérstaklega fimleika, fótbolta eða lyftingar.

 

Einkenni liðskriðs eru:

  • Vöðvaspenna og stirðleiki
  • Leiðniverkir niður í fætur
  • Verkir í mjóbaki
  • Verkir í rassi

 

Liðskrið er aðallega greint með myndrannsóknum. Síðan er það greint eftir alvarleika, frá 1 upp í 5. Þá er metin prósentan af liðnum sem hefur gliðnað miðað við nærliggjandi hryggjarlið. Einkenni eru einnig tekin með í reikninginn.

Þegar liðskrið er metið sem mikið þá eru einstaklingar oftast að finna fyrir dofa, kraftleysi eða leiðniverkjum niður í fætur þar sem gliðnunin veldur þrengslum um mænuna.

Stig nr 5 er alvarlegasta stigið, en þá er hryggjarliðurinn sem er að gliðna alveg farinn af hryggjarliðnum fyrir ofan.

Meðferð við liðskriði er með sjúkraþjálfun og að fara til kírópraktors.

Fyrsta ráð er að taka því rólega og forðast mikla áreynslu, eins og t.d. að lyfta þungu og að beygja sig. Flestir einstaklingar ná bata með sjúkraþjálfun. Þá felst meðferðin aðallega í því að styrkja maga – og bakvöðva og auka liðleika. Bakspelka gæti reynst sumum vel. Bólgueyðandi lyf geta virkað fyrir þá sem hafa mikla verki í bakinu. Stundum er sterum sprautað í epidural svæðið inni í hryggnum, en það gæti virkað vel fyrir þá sem eru með dofa/verki niður í fætur.

Ef ekkert af þessu reynist vel gæti verið að grípa þurfi til aðgerðar.

Batahorfur fyrir einstaklinga með liðskrið eru góðar. Flest allir bregðast vel við meðferðum sem veittar eru við því.

Ef þú ert með eða grunar að þú sért með liðskrið mæli ég með að þú farir til læknis.

Vonandi svaraði þetta spurningunni þinni.

Gangi þér vel

Sigrún Eva Sigurjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur