Hvað þarf ég að vera gömul til að fá pilluna?

Spurning:

Hvað þarf ég að vera gömul til að fá pilluna hjá lækni ég er 16 ára og vil fá pilluna og mamma leyfir það en hún er alltaf að vinna svo það verður aldrei neitt af því og ég er rosalega feimin getur þú sagt mér til?

Svar:

Kæri fyrirspyrjandi.

Þú ert orðin nógu gömul til þess að fá getnaðarvarnarpilluna. Hins vegar ættir þú að lesa vel allt um kynsjúkdóma í kennslubókinni þinni úr líffræði í skóla og svo lesa rækilega allt um pilluna og töku hennar í bæklingnum sem fylgir pillunni. Ræddu svo við piltinn þinn um það hvort hann sé ekki örugglega viss um að hann sé frískur og hafi ekki fengið neitt kynsjúkdómasmit hafi hann stundað kynlíf áður en þið kynntust. Sama gildir um þig.

Þú skalt svo panta tíma hjá heimilislækni þínum og fá hann til þess að kenna þér allt um pilluna og svo fá hann til þess að velja pillu handa þér.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr. med.