Hvað ber að forðast fyrstu vikurnar?

Spurning:
Kæri doktor.is
Ég er 29 ára og var að komast að því að ég er ófrísk. Samkvæmt útreikningum mínum hér á doktor.is á ég von á mér 6.des. (til eða frá) og ætti að vera í mestri fósturlátshættu núna og næstu vikurnar. Hvað má ég alls ekki gera á þessu tímabili og hvaða vítamín o.þ.h ætti ég að forðast? Ég á fósturlát að baki. Má ég stunda líkamsrækt og hvaða æfingar ætti ég helst að forðast? Takk kærlega.

Svar:
Sæl og til hamingju með þungunina.
Það er ekkert eitt sem maður getur gert til að minnka líkurnar á fósturláti nema helst þá að lifa heilbrigðu og góðu líferni, borða hollan mat sem er fjölbreyttur og nóg af grænmeti og ávöxtum. Forðast reykingar og neyslu áfengis og ávanalyfja og hreyfa þig reglulega. Konum er ráðlagt að taka fólinsýru á meðgöngu en hún er nauðsynleg fyrir eðlilegan taugaþroska fósturs fyrstu vikurnar á meðgöngunni. Einnig er mælt með töku fjölvítamíns sérstaklega ef fjölbreytni í fæðuvali er ábótavant. Best er að viðhalda eðlilegum lífstíl eins og kostur er. Einstaklingsbundið er milli kvenna hversu mikið er óhætt að stunda líkamsrækt. Þumalputtareglan er að flestar konur geti stundað áfram þá líkamsrækt sem þær gerðu áður en þær urðu ófrískar en auðvitað á það ekki við allar konur. Ef konur hafa ekki stundað líkamsrækt fyrir meðgöngu er rétt að fara varlega í sakirnar. Göngutúrar, sund og meðgöngujóga eru góðir kostir og henta mörgum konum, einnig eru einhverjar stöðvar með meðgönguleikfimi. Lykilatriðið er að hlusta á líkamann og breyta þjálfuninni eftir því sem líður á meðgönguna og í þínu tilviki myndi ég ráðleggja að forðast allt púl en velja eitthvað létt og halda áfram að hreyfa þig. Vonandi hafa þessi svör komið þér að gagni. Gangi þér vel og njóttu meðgöngunnar

Kveðja,
Halldóra Karlsdóttir, Ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur