Hvað þýðir það að vera með auka fylgju?

Spurning:

Sæl.

Hvað þýðir það að vera með auka fylgju? Og af hverju myndast hún? Þetta sást í 19. vikna sónar hjá mér. Verður erfiðara að fæða barnið og hefur þetta einhver áhrif á barnið í móðurkvið?

Kærar þakkir.

Svar:

Sæl.

Oftast er skýringin á aukafylgju sú að upphaflega hafi verið um tvö fóstur að ræða en annað þeirra ekki þroskast umfram nokkrar vikur. Hin skýringin gæti verið að fylgjan breiði úr sér þannig að vik myndist í henni og hún líti því út eins og tvær fylgjur.

Hvort það hefur einhverja þýðingu fyrir framgang meðgöngu eða þroska fóstursins fer eftir eðli þessarar skiptingar. Sé einungis um aukafylgju vegna visnaðs fósturs að ræða hefur það venjulega ekkert að segja fyrir framgang meðgöngu eða fæðingar. Sé hins vegar um fylgjugalla að ræða fer það eftir ýmsu s.s. staðsetningu naflastrengsins í fylgjunni, hvort þetta hefur einhverja þýðingu. Aukafylgja gerir fæðinguna ekkert erfiðari.

Eftir því sem þau hafa sagt þér í sónar virðist um visnað fóstur að ræða og því ekkert að óttast. Hefði þetta verið eitthvað sem þyrfti nánari skoðunar við hefðu þau sagt þér það og látið þig koma aftur seinna. Vertu því ekkert að stressa þig yfir þessu.

Kveðja, með ósk um gott gengi.
Dagný Zoega, ljósmóðir