Hvað er Adie’s pupil ?

Spurning:
Góðan dag.
Mig vantar upplýsingar í sambandi við augu. Eitthvað sem nefnist ,,Adie's pupil"? Getur þú sagt mér hvað það er?

Svar:
Sæl og blessuð.

Já, Adie's pupil (pupil = sjáaldur) er nafn sem gefið er því ástandi þar sem annað sjáaldrið (stundum ranglega kallaður augasteinn, en þetta er hringlaga gat í lithimnunni, virðist svart vegna þess að það er myrkur inni í auganu) er útvíkkaðra en hitt og bregst verr við ljósi. Viðbrögðin eru líka stundum hægari en viðbrögð hins sjáaldursins. Yfirleitt er þetta aðeins öðrum megin og sést oftar í konum. Annað við augnskoðun er eðlilegt hjá þessu fólki og þetta er ekki neitt sem hefur áhrif á starfsemi augans eða sjón. Einkennilegt er að þessu ástandi fylgir oft léleg viðbrögð í hné, þ.e. þegar bankað er létt á sinina fyrir neðan hnéskelina. Ástæðan fyrir því að þetta getur gerst allt í einu er sennilega vegna veirusýkingar eða annarra orsaka bólgu í svonefndri þriðju heilataug er gengur til augans. Yfirleitt man viðkomandi eftir veirupest nokkru áður en ástandið kom á. Truflun verður á taugaboðum með ofangreindum afleiðingum. Hægt er að greina Adie's pupil með sértækum aðferðum og hvet ég þig til að fara í skoðun til augnlæknis til að kanna þetta ástand – en ég fullvissa þig um að Adie's pupil er saklaust fyrirbrigði og því væri megintilgangurinn að útiloka eitthvað annað. Bestu kveðjur, Jóhannes Kári.