Hvað er brjóskbungun

Spurning:
Ég var að frétta að ég er með brjóskbungun. Ég hef farið í tvær brjósklosaaðgerðir og hef verið með sömu einkennin í ca. 4 mánuði. Ég fór í síðustu aðgerð í fyrra, en ég datt í stiganum heima hjá mér fyrir tveimur mánuðum síðan. Ég hef verið með verki niður í lappir og dofa í tánum og verki þegar ég hósta og hnerra. Ég vildi fá að vita hvað brjóskbunga eða bungun þýðir?

Svar:
Brjóskbungun er slit í hryggjarliðþófanum milli hryggjarliðanna. Þessi hryggjarliðþófi er gerður úr tvenns konar efni, ytra byrðið er trefjabrjósk en innra byrðið er hlaupkenndur kjarni sem hleypur til innan trefjabrjósksins eftir því hvernig álagið er á viðkomandi hryggjaliðþófa. Við margendurtekið óheppilegt álag, fall, áverka eða snöggt rangt átak getur það gerst að þrýstingurinn frá kjarnanum verður það mikill að hann myndar sprungu í trefjabrjóskið og kjarninn lekur út í sprunguna. Rofið á trefjabrjóskinu nær ekki alveg í gegn en lögunin á hryggjarliðþófanum er óeðlilegog veldur útbungunin þrýstingi á taugarót eða mænu. Einkennin geta verið alveg þau sömu og ef um brjósklos væri að ræða enda bara stigsmunur þarna á. Meiri líkur eru þó á að þetta geti gengið til baka án skurðaðgerðar ef rofið nær ekki alveg í gegn. Sjúkraþjálfun og æfingar hjálpa þar til.

Kveðja
Auður Ólafsdóttir sjúkraþjálfari
Sjúkraþjálfun Styrk