Spurning:
Hvað er fæðan sem móðirin borðar lengi að fara í brjóstamjólkina? Ég er með órólegt barn, ég er að reyna að finna hvað fer svona illa í magann á krílinu.
Svar:
Efnin úr fæðunni fara yfir í mjólkina um leið og fæðan kemur ofan í þarmana – þ.e. eftir ca. 10-15 mínútur. Það er fremur sjaldgæft að fæða móður valdi miklum óróleika hjá börnunum nema um sé að ræða fæðu sem er mjög krydduð eða móðirin óvön að borða hana, eða fæða sem er örvandi eins og súkkulaði, te og kaffi. Í sænskri rannsókn kom þó fram að kúamjólkuróþol gat komið fram í gegn um móðurmjólkina. Til að fá botn í hvort eitthvað sem þú borðar valdi óróleika hjá barninu er best að skoða hvað þú borðaðir áður en barnið varð óvært og sleppa því næstu 3 daga en prófa það svo aftur og ef barnið breytist við það er mögulegt að viðkomandi fæða sé orsakavaldurinn. Sé krílið áfram ómögulegt þrátt fyrir að þú sleppir fæðunni er eitthvað annað að plaga það og sjálfsagt að láta lækni líta á barnið.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir