Hvað er Herbalife?

Spurning:

Þar sem stofnandi Herbalife er nýlátinn langar mig til að heyra þitt álit á þessu fæðubótarefni.

Hvað er Herbalife og hvert er hollustugildi þess?

Er í lagi fyrir börn að neyta slíkra fæðubótarefna?

Svar:

Herbalife er líkt og mörg önnur fæðubótarefni þar sem leitast er við að setja saman þau næringarefni sem þekkt er að líkaminn þarfnast í pillur og duft. Hollustugildið er því ekki svo slæmt, en við förum samt á mis við margt ef við skiptum út mat fyrir Herbalife. Herbalife hefur aðallega verið notað til megrunar. Ég er lítið hrifin af þessari leið til að losna við aukakílóin þó svo að sumir hafi náð árangri. Það er þó því miður oftast svoleiðis að um leið og hætt er á Herbalife þá koma aukakílóin fljótt aftur. Ástæðan er sú að ef varanlegur árangur á að nást í megrun þá þarf breyttan lífstíl – það er að segja aukna hreyfingu og minni orkuinntöku, þar sem vænlegast er að skera niður fituneysluna. Það má svo sem segja að að Herbalife sé „breyttur lífstíll", en mér finnst persónulega ekki spennandi að lifa á dufti, tei og pillum það sem eftir er ævinnar! Þá er betra að temja sér heilbrigða lífshætti. Börn og unglingar verða að læra að velja hollt mataræði og heilbrigða lífshætti, þess vegna tel ég ekki æskilegt að börn séu á Herbalife.

Herbalife hefur einnig verið notað sem fæðubótarefni – það er viðbót við fæðu ef hún er ekki fullnægjandi. Þetta finnst mér heldur ekki rétt. Það er ekki erfitt að fullnægja þöfum okkar fyrir öll næringarefnin með fjölbreyttu fæði. Í þessu hraða samfélagi þurfum við að gefa okkur tíma til að setjast niður og fá okkur góðan og hollan mat. Í matnum eru einnig oft efni sem ekki eru nægjanlega vel þekkt ennþá, en vitað er að hafi æskileg áhrif á líkamann, t.d. vörn gegn krabbameini. Þessi efni er meðal annars að finna í ávöxtum og grænmeti og þeim missum við af ef fæðubótarefni er misnotað.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur