Spurning:
Sæll Arnar.
Ég hef verið að velta fyrir mér getnaðarvörnum og heyrði nýlega talað um hormónaþráðinn. Hvað er það, hverjar eru aukaverkanirnar og er þetta fyrir alla? Ég hef t.d. verið slæm af migreni og þoli illa pilluna og getnaðarvarnasprautu.
Bestu kveðjur.
Svar:
Sæl.
Hormónaþráðurinn Implanon er mjór stafur sem settur er undir húð í upphandlegg og leysir út hormón, etónógestrel í allt að þrjú ár. Hann getur gefið svipaðar aukaverkanir og brjóstapillan og hormónasprautan auk þess sem tíðir geta breytst. Líkt og með önnur lyf sem innihalda progestrónlík efni geta komið fram aukaverkanir s.s. migrenilíkur höfuðverkur, bólur í húð, brjóstaspenna og þyngdaraukning. Það er um 3-12% kvenna sem finna eitthvað slíkt. Nokkur hluti fær blæðingaóreglu sem aukaverkun en á móti getur dregið úr tíðarverkjum.
Frekari fræðslu geta læknar veitt.
Kveðja,
Arnar Hauksson dr. med.