Hvað er serótónín heilkenni?

Spurning:
Ég tók Cipramil í tæpa 2 mánuði. Ég fór að fá vöðvakippi og þungan hjartslátt. Ég var líka dæmd með allt of lítið kalíum. Nú var ég að fá símtal frá lækninum um að snarhætta að taka lyfin því ég væri að þróa eitthvert syndrome. (Ég bý í útlöndum og skildi ekki nógu vel hvaða syndrome þetta er.) Mér skildist á lækninum að þetta héti ,,cyatonat syndrome" en ég er viss um að þetta sé ekki rétta orðið því ég finn hvergi neitt um þetta. Ég er bara forvitin um hvaða syndrome þetta er. Gætuð þið vitað það?

Svar:

Lækkað kalíum stafar varla af notkun Cipramil. Lækkað natríum þekkist sem aukaverkun af lyfinu en ekki lækkað kalíum. Til er nokkuð sem kallast serótónín-heilkenni (syndrome). Ekki veit ég þó hvort það er það sem læknirinn hefur talað um við þig. Þetta er mjög sjaldgæft og kemur helst fram ef notuð eru tvö eða fleiri lyf sem valda hækkun á serótóníni. Þetta er hættulegt ástand sem í versta falli getur leitt til dauða. Helstu einkenni eru víma, sljóleiki, hraðar augnhreyfingar, vöðvakippir, stífleiki, svitamyndun og margt fleira. Finnbogi Rútur Hálfdanarson lyfjafræðingur