Hvað er siðblinda?

Spurning:

Kæra Guðríður.

Mig langar til að vita hvað „siðblinda" er og hvernig hún lýsir sér? Og einnig hvort að hægt er að lækna einstakling sem haldinn er siðblindu?

Viðkomandi einstaklingur hefur sýnt að hann veit ekki mun á réttu og röngu með því brjóta af sér með þjófnaði, skjalafalsi o.þ.h. og ekki séð að hann er að gera rangt. Hann hefur marg oft sagt ósatt og virðist ekki gera sér grein fyrir hvað er satt og ekki. Hann gefur út að hann sé strangheiðarlegur og og virtur einstaklingur í þjóðfélaginu þangað til annað kemur í ljós með ofangreindum athöfnum og sýnir enga iðrun á sínum gjörðum. Hann tekur það sem hann getur hvernig svo sem að það kemur niður á öðrum svo lengi sem að hann hefur ávinning af því og sér ekki að hann er að gera neitt rangt.

Hingað til hefur hann komist undan lagalegum refsingum með undanbrögðum og lygum sem eru svo sannfærandi að flestir gleypa strax. Hann er einnig ótrúlega seigur við að fá meðaumkun frá fólki þegar upp kemst um þjófnað eða önnur óheilindi. Það virðist ekki einu sinni snerta hann að hans eigin börn verða fyrir barðinu á þessu hátterni og er hann búin að gera þau að sínum verndurum. Hann lýgur til um uppruna sinn og gefur annaðhvort út að hann sé kominn af auðugu fólki eða að hann hafi verið barinn í æsku og búið við fátækt. Það fer bara eftir því hvað hentar hverju sinni. Ég gæti lengi vel talið upp atriði varðandi þennan mann, því miður, og það eina sem mér hefur dottið í hug er siðblinda. Hann hefur meira að segja blekkt sálfræðinga og félagsráðgjafa með ótrúlegum árangri honum í vil en slóð fórnarlamba þessa manns er orðin ansi löng.

Svar:

Góðan daginn og þakka þér fyrirspurnina.

Spurningin er a.m.k. tvíþætt, og snýst annars vegar um það hvort sú lýsing sem þú gefur á hegðun viðkomandi kallist siðblinda, og hins vegar hvort hægt sé að lækna slíkt ástand.

Þú munt sjá af svari mínu að ég er ekki viss um að siðblinda verði læknuð svona eins og hver annar sjúkdómur. Það fer að öllum líkindum eftir stað og stund, svona almennu gildismati í þjóðfélaginu á hverjum tíma hvað við teljum að felist í því að vera siðblindur. Svona í fljótu bragði, þá er máltilfinning mín sú að einstaklingur sem hagar sér eins og þú lýsir, síendurtekur brot, talar sig auðveldlega inn á fólk, brýtur á sínum nánustu og iðrast ekki, gæti kallast siðblindur. Orðið er eins konar samheiti um síendurteknar athafnir sem hafa það sammerkt að vera lögbrot og vera særandi og meiðandi fyrir aðra.

Í daglegu tali er eðlilegt og þægilegt að nota almennt orðalag af þessu tagi til að lýsa tilteknu mynstri hegðunar og kalla hana t.d. siðblindu, – fólk veit svona nokkurn veginn við hvað er átt. Vandinn er hins vegar sá, að okkur hættir til að nota slík regnhlífarheiti þegar við reynum að skýra orsakir hegðunar sem okkur finnst erfitt að skilja. En við getum einnig velt því fyrir okkur hvort við skiljum skýringuna nokkuð betur? Ef við útskýrum flókna hluti með öðrum flóknum hlutum sem sjálfir þarfnast skýringar, segir það okkur sjaldnast í rauninni nokkuð nýtt. Eftir slíka röksemdafærslu erum við eiginlega komin í hring – hann hagar sér svona af því að hann er siðblindur, hann er siðblindur af því að hann hagar sér svona. Við erum sem sagt farin að skýra skýringuna með hegðuninni sem skýringin átti upphaflega að skýra!

Verra er þó, að þegar maður er lentur aftur á slíkum byrjunarreit, þá hættir manni til að sætta sig við svarið, „skýringuna” og leggja hendur í skaut.

Hvað er þá hægt að gera í tilvikum af þessu tagi?

Að tala um fyrir manninum og reyna að taka beint á hegðun hans gerir lítið annað en að slíta ykkur og íþyngja. Það þurfa væntanlega að verða einhverjar breytingar á því samhengi sem hegðun hans gerist í, þ.e. þeim aðstæðum sem hún skapast við og þeim umsvifalausu afleiðingum fyrir hann sem hegðun hans hefur. Kannski liggur lausnin einmitt þarna í þínu eigin svari, þar sem þú segir meðal annars:

…svo lengi sem að hann hefur ávinning af því…, og

…hingað til hefur hann komist undan lagalegum refsingum ….

Ef maðurinn hætti að hafa ávinning af hegðun sinni og ef refsað yrði fyrir brotin samkvæmt hegningarlögum, er þá ekki líklegt að einhver breyting yrði á? Á meðan brot hans leiða til ávinnings fyrir hann og hafa ekki þær afleiðingar að hann þurfi að gjalda fyrir þau með ástvinaslitum, sekt, fangelsisvist eða öðru sambærilegu, mun hann vafalítið halda uppteknum hætti.

Ég veit að þetta er hægara sagt en gert, en ef til vill er það skyldfólkið, vinir og kunningjar sem þurfa að breyta sinni eigin hegðun gagnvart viðkomandi áður en og til þess að einhverjar breytingar verði á hans. Það sem erfiðast reynist í svona málum er hvað þanþol ástvina og nánustu aðstandenda er oft óendanlega mikið. Í hvert skipti er lofað og í hvert skipti er því trúað að allt verði í lagi og ekki verði um fleiri brot að ræða. Þetta er ekki ósvipað þeirri meðvirkni sem aðstandendur alkóhólista lenda í.

Ef
þú sérð meðvirkni af þessu tagi í því tilviki sem þú talar um og fólk er tilbúið til að gera viðeigandi breytingar þar á, þá er brýnt að þið hugsið vel fram fyrir ykkur í því sambandi. Ef þið breytið aðstæðunum og hegðun ykkar í þá veru að það geri honum erfiðara fyrir og jafnvel stoppi hann af, má búast við því að viðkomandi bregðist mjög illa við, jafnvel svo að þeir sem í hlut eiga þurfa að undirbúa sig rækilega, leita hjálpar og skipuleggja samræmdar aðgerðir með þéttu stuðningsneti og baklandi.

Þessu til viðbótar má einnig nefna að hjá þeim sem fremja síendurtekin brot má oft sjá eins konar snjóboltaáhrif eða nám. Fyrstu brot eru þá hlutfallslega smávægileg og ekki mjög tíð. Þeim fjölgar síðan hratt, og stöðugt hraðar að sama skapi sem þau vaxa að umfangi og alvarleik. Í þessu samhengi er athyglisvert að skoða fleira en aðeins þyngd refsinganna eða í hverju þær felast. Aðrir þættir skipta líka mjög miklu máli um áframhaldið. Þar vil ég sérstaklega nefna tvennt, þ.e. hvort eðlilegar afleiðingar brota þá væntanlega refsing að einhverju tagi, komi alltaf í kjölfar brotanna eða aðeins stundum, og einnig hve langur tími líður frá broti að refsingu, óháð því í hverju hún felst. Ef síbrotamönnum er á annað borð refsað, má væntanlega sjá að refsingin kemur seint og sjaldan, sérstaklega framarlega á brotaferli.

Í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur að undanförnu um gagnsemi refsinga og þyngd þeirra samanborið við önnur viðurlög, þá er mikilvægt að muna að þótt brot sé með þeim hætti að eðlilegt þyki að fyrir það sé refsað, þá kennir refsing ein og sér ekki nýja hegðun. Til að draga úr líkum þess að það sem brotamaðurinn gerir næst verði ekki líka refsivert eða meiðandi, þarf jafnhliða refsingu að kenna sérstaklega aðra hegðun sem er ósamrýmanleg brotahegðuninni, svo viðkomandi leiti inn á gæfulegri leiðir í lífinu.

Vona að svarið komi að gagni og bendi þér á ýmsar nýjar hliðar á málinu.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir, atferlisfræðingur