Hvað er slagæðabólga?

Spurning:

Sæll.

Hvað er slagæðabólga? Hvernig sjúkdómur er þetta? Af hverju kemur hann og hverjar eru batahorfurnar?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Slagæðabólga er samheiti yfir flokk sjúkdóma sem eiga það sameiginlegt að einkennast af bólgusvörun í slagæðum, en slagæðar eru allar þær æðar sem flytja súrefnisríkt blóð frá hjartanu og til hinna ýmsu vefja líkamans. Nokkrar mismunandi tegundir slagæðabólgu eru skilgreindar. Til þessa sjúkdómsflokks teljast meðal annars bólga í gagnaugaslagæðum (temporal arteritis) sem oft er fylgifiskur vöðvagiktarsjúkdómsins polymyalgia rheumatica. Þetta er ein algengasta tegund slagæðabólgu, veldur oft höfuðverkjum, vöðvaeymslum og stirðleika, blóðleysi og stundum sjóntruflunum. Í blóði mælist sökk hækkað. Þessi sjúkdómur er meðhöndlaður með sterum (prednisolon) og er svörun oftast mjög góð þó að gangur geti orðið langdreginn í sumum tilfellum. Önnur gerð slagæðabólgu er kennd við Wegener og leggst fyrst og fremst á slímhúðir öndunarfæra og nýru. Einkenni eru oft um slímhúðarbólgur í nefi, eyrnabólgur eða blóð í hráka eða þvagi. Aðrar tegundir slagæðabólgu eru meira útbreiddar og eru einkenni mismunandi eftir því í hvaða líffærum slagæðabólgan herjar hverju sinni. Má hér nefna polyarteritis nodosa, Churg-Strauss,Henoch-Schönlein og slagæðabólgur af völdum ofnæmissjúkdóma. Meðferð og horfur í slagæðabólgusjúkdómum geta því verið margvísleg. Rétt er að leita til læknis með sérmenntun í gigtarsjúkdómum eða ofnæmissjúkdómum til meðferðar og eftirlits á flestum tegundum þeirra.

Karl Andersen, dr. med.
Sérfræðingur í hjartasjúkdómum og almennum lyflækningum.
Karl er í stjórn Hjartaverndar