Hvað er svona hættulegt við stera?

Spurning:
Mig langar að vita allt um stera, hvað það er sem er svona hættulegt við þá og af hverju eru þeir bannaði á Íslandi. Ég er að spá í að fara að nota stera en langar að kynna mér þetta áður. Eruð þið til í að senda mér allar þær upplýsingar sem þið hafið um stera við fyrsta tækifæri svo að ég geti vegið kosti þeirra og galla. Ég veit að þeir eru hættulegir einhverra hluta vegna en það hljóta líka að vera einhverjir kostir við þá.

Svar:
Hægt væri að skrifa langa ritgerð um hætturnar af notkun vefaukandi (anabólískra) stera. Það ætla ég ekki að gera en sendi hér með grein af doktor.is eftir Magnús Jóhannsson lækni og prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands.
Af sömu heimasíðu kemur einnig lítil klausa um stera sem er í umfjöllun um lyfjamisnotkun frá Íþróttasambandi Íslands.
 

Lyf og íþróttir

Magnús Jóhannsson, læknir og prófessor í lyfjafræði

Eru keppnisíþróttir hollar?

Meðal lyfja sem keppnisíþróttamenn nota ólöglega til að bæta árangur sinn eru betablokkarar (m.a. notaðir við háum blóðþrýstingi), adrenvirk lyf (notuð við astma), amfetamín (örvar heilann), vefaukandi sterar, matarsódi, koffein, kalsíumblokkarar (m.a. notaðir við háum blóðþrýstingi), járn (notað við blóðleysi), bólgueyðandi gigtarlyf, þvagræsilyf (m.a. notuð við háum blóðþrýstingi og hjartabilun), erýtrópóíetín (örvar myndun rauðra blóðkorna), vaxtarhormón (notað til að hindra dvergvöxt), pseudóefedrín (örvar heilann), tamoxífen (notað við brjóstakrabbameini), teófýllín (notað við astma), kóríongónadótrópín (notað við ófrjósemi) og vítamín (í risaskömmtum). Öll þessi lyf geta haft aukaverkanir, sumar alvarlegar og jafnvel lífshættulegar, einkum í þeim stóru skömmtum sem oft eru notaðir af íþróttamönnum.

Fyrir u.þ.b. áratug dó þekkt, þýsk frjálsíþróttakona, aðeins rúmlega tvítug að aldri. Síðustu dagana lá hún á sjúkrahúsi og allt var gert til að reyna að bjarga lífi hennar. Engin venjuleg læknisfræðileg skýring fannst á ástandi hennar og það var engu líkara en að líkaminn væri búinn að gefast upp. Í fórum þessarar ungu, efnilegu íþróttakonu fundust rúmlega 100 lyf af ýmsum gerðum og smám saman varð ljóst að hún hafði látið lífið vegna langvarandi misnotkunar lyfja. Mál þetta vakti mikla athygli í Þýskalandi og víða um heim og má segja að það hafi á vissan hátt markað upphaf þeirrar umræðu um lyfjamisnotkun íþróttamanna sem hefur verið í gangi síðan. En hvaðan koma þessi lyf? Það hefur verið kannað víða erlendis og virðist stór hluti lyfjanna seldur á ólöglegum markaði þar sem sumt hefur verið framleitt sérstaklega fyrir íþróttamenn en annað útvegað á fölskum forsendum, m.a. sem dýralyf, en enn öðru hefur verið stolið. Áætlað hefur verið að þessi ólöglegi markaður velti sem svarar 60 milljörðum íslenskra króna á ári. Einnig eru til læknar sem útvega lyfin, stundum gegn háum greiðslum en stundum í þeirri trú að með því móti sé hægt að halda skömmtum í skefjum og minnka þannig líkur á hættulegum aukaverkunum. Slík iðja er ósiðleg og refsiverð og þar að auki er vitað að þetta fólk gengur oft milli lækna til að safna því magni lyfja sem ætlunin er að nota. Umræðan hefur oft takmarkast við vefaukandi stera (anabol stera) en ekki má gleyma öllum hinum lyfjunum. Fyrsti vefaukandi sterinn sem íþróttamenn misnotuðu var karlhormóninn testósteron. Fyrst var farið að fikta við notkun hans um 1950, notkunin fór að aukast upp úr 1960 og hefur aftur aukist mikið á síðustu 10 árum eða svo. Í könnun sem gerð var í Bandaríkjunum 1993 kom í ljós að notendur vefaukandi stera voru a.m.k. 300 þúsund og fyrrverandi notendur a.m.k. ein milljón. Fyrst í stað voru sterarnir misnotaðir af vaxtarræktarfólki og kraftlyftingamönnum en hefur síðan breiðst út til íþróttagreina eins og kastíþrótta (kúlu-, kylfu-, kringlu- og spjótkasts), knattspyrnu, íshokkís, sunds, hjólreiða, skíðaíþrótta, blaks, glímu, sleðaíþrótta, handbolta og amerísks fótbolta. Mjög erfitt er að henda reiður á þessu, mælingar eru erfiðar og stundum ekki nógu næmar og notendurnir og aðstoðarmenn þeirra hafa þróað aðferðir til að komast hjá því að upp komist. Málið er þar að auki mjög viðkvæmt, m.a. vegna þess að mörgum finnst keppnisíþróttamenn eigi að vera ímynd hreysti og heilbrigðis og í flestum löndum þiggur íþróttahreyfingin verulega styrki af almannafé, sem að miklum hluta er varið til þjálfunar stjörnuíþróttamanna en að litlum hluta til almenningsíþrótta. Þegar íþróttamenn eru bendlaðir við lyfjamisnotkun er því eðlilegt að sumir neiti að trúa því en aðrir reyni að gera lítið úr málum eða jafnvel þaggi þau niður. Sums staðar erlendis hafa íþróttafélög verið gagnrýnd fyrir að gera ekki raunverulegt átak í þessum málum, heldur einungis setja í tímabundið keppnisbann þá örfáu sem eru svo óheppnir að vera gripnir.

Meira um keppnisíþróttir og lyf

Að undanförnu hefur athygli manna einkum beinst að misnotkun vefaukandi stera (anabol stera) en ekki má gleyma að fjölmörg önnur lyf koma við sögu. Sumir velta því nú fyrir sér hvort hér sé um að ræða upprennandi heilbrigðisvandamál sem komi til með að hellast yfir okkur eftir fáeina áratugi, þegar þeir sem eru að misnota þessi lyf nú verða komnir á miðjan aldur og þar yfir.

Vefaukandi sterum má skipta gróft niður í tvo flokka:

1) lyfjum sem er sprautað í vöðva og innihalda oftast testósterón og 2) lyf sem eru tekin inn sem töflur og innihalda oftast efni sem eru skyld testósteróni.

Ekki er munur á aukaverkunum þessara tveggja flokka og eru ýmsar vel þekktar:

Kynfæri:
Hjá karlmönnum dregur úr myndun sæðisfrumna eða hún stöðvast alveg og eistun minnka. Konur fá óreglulegar blæðingar eða að blæðingar stöðvast alveg, snípurinn stækkar og þær verða dimmraddaðar það sem eftir er ævinnar.

Lifur:
Ýmsar breytingar verða á lifrarstarfsemi sem lítið er vitað um frekar en einstaka sinnum verður gallstífla með gulu.

Efnaskipti:
Sölt og vökvi safnast fyrir í líkamanum og margir taka þvagræsilyf til að koma í veg fyrir bjúg. Heildarmagn kólesteróls í blóði breytist lítið en hlutfall mismunandi tegunda kólesteróls verður óhagstætt þannig að það stuðlar að æðakölkun. Sykurþol minnkar en sykursýki er sjaldgæf.

Húð:
Næstum allir fá gelgjubólur. Konur fá aukinn hárvöxt í andliti og víðar á líkamanum. Karlmenn fá brjóstastækkun sem er svo illa séð af vaxtarræktarmönnum að þeir leita iðulega til lýtaskurðlækna.

Líkamsvöxtur:
Þegar slík lyf eru tekin af ungu fólki sem enn er að vaxa má gera ráð fyrir að vaxtarlínur beina lokist og þar með sé tekið fyrir allan frekari vöxt.

Hjarta og blóðrás:
Á síðustu 10 árum er vitað með vissu um 14 tilfelli í heiminum (raunverulegur fjöldi er vafalítið margfalt meiri) þar sem kraftlyftingamenn og vaxtarræktarmenn sem notuðu vefaukandi stera fengu alvarleg hjartaáföll eða slag. Þarna er sennilega um að ræða samspil óæskilegra áhrifa lyfjanna á æðaveggi, blóðstorku og blóðflögur. Þar að auki ber að hafa í huga að með því að hækka blóðþrýsting og hafa óæskileg áhrif á blóðfitu geta þessi lyf flýtt fyrir æðakölkun.

Geð:
Aukin árásarhneigð notenda vefaukandi stera er vel þekkt fyrirbæri. Sumir verða einnig andlega háðir lyfjunum, fara að hegða sér undarlega eða verða geðveikir. Í nokkrum tilvikum hafa fundist tengsl milli notkunar þessara lyfja og afbrota.

Krabbamein:
Vissar grunsemdir eru um að vefaukandi sterar geti valdið krabbameini í lifur, blöðruhálskirtli eða ristli, en þetta er engan veginn sannað.

Af öðrum lyfjum má nefna tamoxífen (notað við brjóstakrabbameini) sem íþróttamenn nota til að fela áhrif vefaukandi stera en það getur valdið svitakófum, blæðingum frá fæðingarvegi, magaverkjum, bjúgi og blóðtappa. Vaxtarhormón getur valdið ofvexti í vissum beinum, nefi, vörum og tungu og stækkun á höndum og fótum. Adrenvirk lyf (notuð við astma), misnotuð af vaxtarræktarmönnum til að minnka húðfitu, geta valdið hjartsláttartruflunum, skjálfta, kvíða og hræðslu. Koffein í stórum skömmtum getur valdið hjartsláttartruflunum. Amfetamín hefur líklega valdið dauða fleiri íþróttamanna en nokkuð annað lyf og m.a. er vitað um allmarga hjólreiðamenn sem dóu af notkun þess á sjöunda áratugnum.
 
 
Vefaukandi lyf

Vefaukandi sterar, t.d. karlkynshormónið testosteron og skyld efni, hafa áhrif á kynfæri, bein og vöðva. Þeir auka vaxtarhraða vöðva og geta bætt árangur í greinum sem krefjast mikils vöðvastyrks. Notkun vefaukandi stera og skyldra efna er því bönnuð í tengslum við æfingar og keppni í íþróttum.
Beta-2 virk efni (t.d. í sumum astmalyfjum) geta haft vefaukandi áhrif og er notkun þeirra bönnuð. Þó er leyfilegt að nota sum þeirra sem innöndunarlyf, en skylt er að tilkynna notkunina og leggja fram læknisvottorð um að hún sé nauðsynleg.
Vefaukandi sterar geta haft hættulegar aukaverkanir. Þeir geta valdið hækkuðum blóðþrýstingi, hjarta- og æðasjúkdómum, skemmdum á lifur og nýrum og húðsjúkdómum. Einnig geta þeir valdið sálrænum breytingum og atferlisbreytingum, t.d. aukinni ofbeldis- og árásarhneigð. Loks trufla þeir hormónaframleiðslu líkamans og geta þannig valdið breytingum á kynfærum og kyneinkennum.
Vefaukandi sterar eru eitthvað notaðir við að auka vöðvauppbyggingu einkum í endurhæfingaskyni. Engin ástæða er fyrir heilbrigt fólk að nota þessi lyf. Einnig má benda á að þeir skammtar sem tíðkast hjá vaxtarræktarmönnum og íþróttamönnum eru langtum stærri en þeir sem tíðkast í lækningaskyni og hættan af aukaverkunum því margföld.
Notkun vefaukandi stera í lækningaskyni er ekki bönnuð. Reyndar eru engin þannig lyf skráð hér á landi og þurfa læknar því að sækja um sérstaka undanþágu til ávísunar þeirra. Þessi efni eru að sjálfsögðu lyfseðilskyld lyf og háð öllum sömu kröfum sem gilda um önnur lyf hér á landi sem og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Innflutningur þeirra og notkun er því háð þeim skilyrðum að læknir ávísi þeim með sérstakri undanþágu, þar sem þau eru ekki skráð hér á landi og þau séu flutt inn af viðurkenndurm lyfjainnflytjendum frá viðurkenndum framleiðendum og afgreidd í gegnum apótek. Þessar ströngu reglur eru eingöngu settar til verndar neytendum.
Persónulega legg ég notkun vefaukandi stera að jöfnu við fíkniefnaneyslu.
Mitt ráð til þín er að hætta algerlega að hugsa um að taka inn vefaukandi stera.
 
Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur