Hvað er til ráða við legsigi?

Spurning:
Þannig er að ég held að ég sé með legsig en ég finn ekkert um það á netinu. Ég finn að leghálsinn er neðar en vanalega og komst að því þegar ég var að setja í mig túrtappa. Ég hélt ég væri með tappa í mér vegna þess að ég fann hnúð og þegar ég klíp í hann finn ég ekkert fyrir því og ég er svo til alveg tilfinningalaus í honum. Ég var með lykkjuna fyrir nokkrum árum þannig að ég veit nokkurn veginn hvar allt á að vera og þetta er allt of neðarlega allt saman. Svo hef ég líka verið með rosalega miklar blæðingar og verki, og stundum kemur blóð eftir samfarir. Ég fór til læknis fyrir nokkrum mánuðum og það fannst ekkert að mér nema hvað hann bar græðandi krem þar sem sár var eftir keiluskurð sem ég fór í 1996, engar frumubreytingar eða neitt þessháttar fannst þá. Ég bý úti á landi svo ég hleyp ekki að því að komast til sérfræðings. Gætir þú sagt mér eitthvað um hvað gæti verið að mér? Ég á 4 börn frá 10 mán. – 8 ára, svo mér dettur helst í hug legsig. Ég hef gert grindarbotnsæfingar, svo HJÁLP.

Ein ráðþrota.

Svar:

Sæl.

Svokallað leg- og blöðrusig er sig á þessum líffærum þannig að þau ganga neðar í grindarbotninn en er fyrir þunganir. Orsök er tognun á bandvef og vöðvum í grindarbotni vegna þunga meðgöngunnar svo og vegna fæðingar og skiptir þar nokkru hvort þú hefur þurft að rembast mikið í fæðingu. Að auki er þetta að hluta til ættgengt. Þú er það ung, auk þess sem ekki er of langt frá síðustu fæðingu, svo ég held að þú eigir talsvert góða möguleika á því að vinna þetta upp að verulegu leyti með grindarbotnsæfingum. Þær er ekki hægt að kenna gegnum netið svo vel sé, heldur þarftu að hitta sjúkraþjálfara, íþróttakennara, ljósmóður eða lækni sem fer yfir grunnatriði þessa með þér. Með réttri beitingu ættir þú að verða góð. Ef eitthvað af þessu er of erfitt heima í héraði getur þú sætt lagi að eiga tíma hjá slíkum einstaklingi næst þegar þú átt bæjarferð og getur heilsugæslulæknir þinn þá orðið þér innan handar treysti hann sér ekki að leysa málið einn.

Með bestu kveðjum,
Arnar Hauksson dr. med.