Spurning:
Hvert er fræðiheitið/enska heitið á geðhvörfum tvö? Hvað er vitað um þennan sjúkdóm?
Svar:
Geðhvörf tvö nefnast á ensku ,,Bipolar II” Þau lýsa sér að sumu leyti svipað og geðhvörf I, þ.e. sjúklingurinn upplifir bæði tímabil með oflæti og tímabil þunglyndis. Geðhvörf tvö eru frábrugðin að því leyti að oflætistímabilin eru oft styttri og ekki eins alvarleg. Á ensku er notað heitið ,,hypomania” til aðgreiningar frá oflætinu sem einkennir geðhvörf I. Oflætistímabilin hjá einstaklingum með geðhvörf II eru því oft ekki eins mikil hindrun fyrir starf eða nám eins og þau geta verið hjá sjúklingum með geðhvörf I. Hins vegar geta þunglyndistímabilin verið jafn alvarleg og hjá öðrum geðhvarfasjúklingum.
Ef óskað er eftir frekari upplýsingum um geðhvörf II vil ég benda á Einar Guðmundsson geðlækni en hann hélt einmitt fyrirlestur um þennan sjúkdóm hér hjá Geðhjálp fyrr í vetur.
Eins vil ég vekja athygli á geðhvarfahópi sem hittist vikulega hér hjá Geðhjálp í Túngötu 7 á fimmtudagskvöldum kl. 21.00. Allir eru velkomnir í þennan hóp hvort sem þeir hafa verið greindir með geðhvörf I eða II.
Með bestu kveðju,
Guðbjörg Daníelsdóttir, sálfræðingur hjá Geðhjálp.