Hvað eru æxlisvísar?

Spurning:
Hvað eru æxlisvísar og hvað segja þeir konu með brjóstakrabbamein?

Svar:
Æxlisvísar eru mikið notaðir í krabbameinslækningum (tumor markers). Þetta eru ákveðin efni, oftast prótein,sem æxlisfrumur og reyndar stundum líka heilbrigðar frumur, gefa frá sér og eru merkjanlegar í blóði (sermi) eða þvagi sjúklinga. Það eru þekktar nokkrar tegundir æxlisvísa í dag og eru þeir ýmist sértækir fyrir eina tegund krabbameins (PSA og blöðruhálskirtilskrabbamein) eða ósértækir og geta komið fram í mörgum illkynja sjúkdómum ( meltingarfærakrabbamein , brjóstakrabbamein ofl.) eða jafnvel öðrum sjúkdómum sem og hjá þeim sem reykja og eru að öllu leyti heilbrigðir.
Æxlisvísar eru alla jafna ekki notaðir til að greina krabbamein á byrjunarstigi þó deilt hafi verið um ágæti PSA sem greiningarprófs hjá einkennalausum körlum við skimun á blöðruhálskirtilskrabbameini. Varðandi brjóstakrabbamein eru æxlisvísarnir CA15-3 og CEA oftast notaðir og stundum einnig CA 125, en þá eru gildi æxlisvísanna mæld í blóði, oftast strax við greiningu sjúkdómsins og svo eru gildin notuð sem hjálpartæki við að fylgja gangi sjúkdómsins eftir, hvort sem sjúklingurinn er einkennalaus í eftirliti eða til að meta gagnsemi lyfjameðferðar við útbreiddum sjúkdómi. Einir og sér segja æxlisvísarnir aldrei alla söguna og alltaf verður að skoða þá í réttu samhengi við aðrar rannsóknarniðurstöður og almennt ástand sjúklingsins.

Kveðja,
Kristín, hjúkrunarfræðingur Krabbameinsráðgjöfinni.