Spurning:
Sæll og blessaður,
Faðir minn reykir og á orðið í erfiðleikum með gang. þannig er að eftir smáspöl fer hann að fá kvalir í fæturna, þannig að hann verður að setjast niður. Nú sá ég á heimasíðu medscape að lyfið Cilstazol mun eiga að hjálpa í einhverjum tilfellum. Kannt þú einhver deili á þessu lyfi, eða öðrum sambærilegum sem gætu hjálpað í þessu samhengi. Síðan er náttúrulega spurning um hreinlega skurðaðgerð til að skipta út æðum, ef tilfellið er að um svo miklar þrengingar sé að ræða að ekki flytjist nóg blóð til fótanna viðáreynslu.
bestu kveðjur,
Svar:
Cilostazol er blóðþynnandi og æðavíkkandi lyf og er því notað til að auka blóðflæði til fóta. Þegar blóðflæðið eykst kemst meira súrefni til fótanna. Miklir verkir koma ef blóðþurrð og þar að leiðandi súrefnisskortur er á einhverjum svæðum. Margir þekkja e.t.v. að þegar kransæðar hjartans eru orðnar þröngar (kransæðastífla) og bera lítið blóð kemur verkur í hjartað.
Þetta lyf er ekki skráð á Íslandi en önnur blóðþynnandi og æðavíkkandi lyf eru hér á markaði. Það er ekki hættulaust að nota þessi lyf. Þegar að blóðið þynnist og æðarnar víkka er hætta á því að það losni um fitu sem er innan á æðunum og myndar þrengingarnar. Ef þessir fitukögglar losna geta þeir farið beint upp í hjarta og stíflað æðar þar (kransæðarnar) og það getur valdið dauða.
Mikilvægt er að ræða meðferðarkosti við lækni og vera meðvitaður um þær hættur sem eru til staðar.
Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur