Hvað gerist ef engin gallblaðra er til staðar?

Spurning:
Hvernig bregst líkaminn/meltingin við að vera án gallblöðru til margra ára ?

Svar:
Gallblaðran er "eiginlega" geymsla fyrir gallið, sem er meltingarsafi. Þegar borðað er losar gallblaðran gallið og það blandast fæðunni í skeifugörn og auðveldar nýtingu ákveðinna næringarefna. Gallið inniheldur gallsölt m.a. og geta þau verið ertandi fyrir klæðningu meltingarvegarins. Þegar gallblaðran er fjarlægð verður sírennsli á gallinu niður í meltingarveginn (smágirni og ristil) óháð því hvort einstaklingurinn er að borða eða ekki. Gallið getur því verið óþynnt um tíma í meltingarveginum og valdið ertingu í þekju hans. Flestum verður ekki meint af að missa gallblöðruna enda oftast sjúk þegar hún er fjarlægð. Meltingarvegurinn aðlagar sig að breyttum aðstæðum. Þú spyrð um síðkomin áhrif á meltingarveginn þegar gallblaðran hefur verið fjarlægð. Langflestir höndla það ástand mjög vel og það hefur lítil eða engin almenn áhrif. Hins vegar kemur fyrir að fólk fær niðurgang vegna ertingar af gallsýrunum, og ef fólk hefur verið magaskorið (hluti af maganum fjarlægður) getur það fengið magabólgur. Hugmyndir hafa verið uppi um að það geti valdið ristilkrabbameini þegar fram liða stundir, en ekki hefur verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti. En, vel á minnst. Nær allar gallblöðrur eru fjarlægðar vegna þess þær eru sjúkar (flestar með gallsteinum í), þannig að ekki eru margir kostir í stöðunni. Ekki virðist mikil hætta því fylgjandi að vera gallblöðrulaus.

Kveðja. Ásgeir Theodórs, læknir