Hvað gerum við vitlaust?

Spurning:
Kæra Ágústa

Mig langar að fá smá hjálp málið er að við mágkonurnar erum í aðhaldi við förum í sund 3-4 á viku og syndum í 20 mín síðan göngum við í 60 mín helst einu sinni á dag og stundum förum við á orbitrek tækið ca 3 í viku borðum allaf morgunmat léttan hádegisverð létt í kaffinu og borðum síðan heitan mat á kvöldin en blessuð viktin stendur alltaf í stað hvað gerum við vitlaust??

Með Kærri kveðju 2 alveg að gefast upp

Svar:
Þið nefnið ekki hve lengi þið hafið verið í þessu aðhaldi. Það tekur oft nokkrar vikur að sjá árangurinn. Ef þið finnið engan mun á ykkur eftir 6-7 vikur, s.s fötin orðin aðeins víðari og ásýndin í speglinum orðin aðeins breytt, er líklegt að þið borðið jafn margar hitaeiningar og þið brennið. Er e.t.v. svigrúm til að minnka skammtastærðina eða sleppa kökum ,sætindum eða öðru slíku? Þið getið e.t.v. einnig aukið álagið, synt af meiri krafti og aðeins lengur og gengið mjög rösklega þannig að þið mæðist vel. Gönguferðir geta kostað afar mis mikla brennslu. Hjartslátturinn þarf að hækka til að um góða brennslu sé að ræða. Þið nefnið ekki hve lengi þið æfið á Orbitrek tækinu, það ætti að vera í 20-30 mín.

Gangi ykkur vel.

Bestu kveðjur, Ágústa Johnson,
framkvæmdastj. Hreyfing, heilsurækt
Faxafeni 14 108 Reykjavík s. 568 9915

Hreyfing gerir lífið betra Kíktu á heimasíðu okkar www.hreyfing.is