Hvað getur valdið blóðtappa í naflastreng?

Spurning:
Mig langar að vita hvort mótefnamyndun Rhesus negatífrar móður gegn Rh pósitífu barni geti hugsanlega valdið blóðtappa í naflastreng ?

Ástæðan fyrir að ég spyr um þetta er að ég er ófrísk og er Rh negatíf. Systir mín var ófrísk en var að missa barnið í síðasta mánuði því það kom upp blóðtappi í naflastrengnum. Því fór ég að spá í hvort hugsanlegt sé að hún hafi myndað mótefni gegn barninu sem síðan hafi orðið til blóðstorknunarinnar í naflastrengnum (veit ekki með vissu hvort hún sé negatíf, en við erum alsystur, svo það er möguleiki að hún sé það líka). Er einhver möguleiki á að þetta geti verið skýring á þessu?

Ef svo er, er þá ástæða fyrir mig að hafa sérstakar varúðarráðstafanir á minni meðgöngu ? Hverjar þá ?

Þetta var hennar fyrsta barn og ég geng líka með mitt fyrsta barn

Svar:
Það er mjög hæpið að mótefnamyndun hafi verið skýringin á blóðtappanum í naflastrengnum hjá barni systur þinnar. Ef blóð móðurinnar myndar mikið af mótefnum við Rhesus misræmi veldur það niðurbroti rauðra blóðkorna í blóðrás barnsins en ekki blóðtappamyndun. Miklu líklegri skýring á blóðtappanum er áverki á fylgju eða naflastreng.

Það er vel fyglst með mótefnamyndun Rhesus neikvæðra kvenna á meðgöngu og ef mótefnamyndun hefst eru gerðar viðeigandi varúðarráðstafanir til bjargar barninu. Ef þú ert áhyggjufull ættir þú að ræða þessi mál við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni eða lækni.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir