Spurning:
Hvað kostar að láta fjarlægja húðslit eftir meðgöngu og hvaða aðferð er best að láta nota við það?
Svar:
Komdu sæl.
Þakka þér fyrirspurnina.
Húðslit er örvefur sem allir geta fengið – karl- jafnt sem kvenmenn. Af hverju það kemur? Þetta gerist vegna skyndilegrar þenslu húðarinnar og/eða hormónabreytinga t.d. er börn taka skyndilegan vaxtarkipp, kynþroskaaldur þegar unglingar fá tímabundna fitusöfnun og -dreifingu, hjá konum á meðgöngu og offitu þegar mikil þyngdaraukning verður á skömmum tíma. Staðsetnig slitanna er aðallega á mjóbaki, upphandleggjum, rassi, mjöðmum, lærum, kvið og brjóstum. Slitin eru bleik/rauð og geta verið mjög áberandi og fólk líður fyrir þetta útlit sitt. Þessi litur dofnar á næstu 1-2 árum og verður þá minna áberandi, nema í návígi. Venjulega er ekkert gert við slíkum húðslitum. Það er þó hægt að flýta fyrir því að rauðleitur liturinn dofni/hvítni með ljós-geisla meðferð. Einnig er hægt að gera aðgerð á slitunum. Er það einkum gert hjá konum sem hafa slitnað mjög illa á meðgöngu og húð á kvið er mjög teygð/lafandi á eftir og nær ekki sinni fyrri lögun þrátt fyrir líkamsrækt. Erfitt er að koma í veg fyrir að þetta gerist. Þó má reyna að fyrirbyggja það með því – kvölds og morgna – að bera á húðina gott krem/olíu og nudda því vel inn í húðina. Mörgum hefur reynst vel að nota krem sem inniheldur Aloe Vera sem er mjög græðandi.
Kostnaður meðferðar með ljós-geisla tækni ræðst af umgfangi meðferðarsvæðisins þ.e. hversu stórt það er. Tryggingastofnun ríkisins tekur ekki þátt í kostnaði svo hann leggst alfarið á sjúklinginn. Ég ráðlegg þér að fara í viðtal og fá uppgefið kostnaðarverð/tilboð.
Kveðja,
Hrönn Guðmundsdóttir, hjúkrunarforstjóri Laserlækningu