Hvað með Herbalife – gull? Er hann ekki skaðlaus?

Spurning:

Sæll.

Nú er Herbalife nýkominn með á markaðinn hér kúr sem kallast Gullið. Fólk hefur verið að missa 4-6 kg á viku. Að vísu færðu úr þessum kúr öll þau vítamín sem þú þarft. Á hann þá ekki að vera skaðlaus?

Svar:

Sæll.

Fyrir mig hljómar Herbalife-gull sem hið argasta bull. Því miður eru margir sem einblína aðeins á vigtina og þegar þyngdartapsloforðin eru stórkostleg eru þeir tilbúnir að láta alla skynsemi sem vind um eyru þjóta. Því fleiri kíló af á sem skemmstum tíma því meira spennandi! Til að missa fitu úr líkama þurfum við að neyta færri hitaeininga en við brennum. Þegar haft er í huga að ½ fitukíló jafngildir um 4.000 hitaeiningum er ljóst að til að missa ½ kg af fitu þurfum við að losa um 4.000 hitaeiningar úr líkama. Sem dæmi má nefna að maður sem brennir 2.000 hitaeiningum og fer að neyta 1.500 á dag nær þessu takmarki á átta dögum. Þú segir að fólk á gullínunni sé að missa 4-6 kg á viku sem að meðaltali er þá nokkru meira en hálft kíló á dag! Tökum eftirfarandi dæmi um mann að nafni Nonni:

Hvað þarf Nonni að gera til að missa hálft kíló af fitu á dag?

(Algeng orkuþörf kvenna er á bilinu 1.600 til 2.400 hitaeiningar á dag og karla á bilinu 2.400 til 3.100. Hálft kíló af fituvef jafngildir um 4.000 hitaeiningum.)

Gefum okkur að orkuþörf Nonna sé 3.000 hitaeiningar á dag og hann ætli að losa sig við 3½ kg af fitu á viku en það jafngildir hálfu kílói á dag.

Fyrsti dagur: Nonni borðar ekki neitt og gerum ráð fyrir að vegna þess losi líkaminn sig við 3.000 hitaeiningar sem er brennslugeta hans (í reynd brennir hann mun minna vegna þess að líkaminn dregur úr brennslu ef ekkert er borðað). Nonni hefur því losað sig við 3.000 hitaeiningar en þarf að losa sig við 1.000 til viðbótar. Eina leiðin til þess er að reyna á líkamann. Gefum okkur að hann fari í klukkutíma göngutúr og gangi nokkuð rösklega eða á 7 km hraða á klukkustund. Þessi klukkutíma gönguferð leiðir til um 500 hitaeininga brennslu. Augljóslega dugir það ekki til og þarf Nonni því að brenna 500 hitaeiningum í viðbót til að losa sig við hálft kíló af fitu. Við erum ennþá á fyrsta degi!

Með öðrum öðrum orðum: Ætli Nonni að léttast um 3½ kg á einni viku má hann ekki borða neitt allan tímann og fara að minnsta kosti í tveggja klukkutíma rösklegan göngutúr dag hvern! Hafa skal hugfast að fjöldi neyttra hitaeininga, í flestum tilvikum, ætti að nema að lágmarki um 1.500 hitaeiningum á dag.

Fræðilega séð þyrfti því einstaklingur sem ætlar að léttast um hálft kíló af fitu á dag og borðar mat sem jafngildir 1.500 hitaeiningum að hafa brennslugetu upp á 5.500 hitaeiningar en þeir sem hafa svo háa brennslugetu heyra til undantekninga.

Þeir sem hafa lesið svar mitt hafa eflaust tekið eftir að hér er talað um fitutap. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þar sem það þyngdartap sem fólk kann að verða fyrir á stuttum tíma skýrist oft að litlu leyti af fitutapi. Með öðrum orðum: Ef mjög fárra hitaeininga er neytt og ef samsetning orkuefna er mjög brengluð (s.s. mikil prótein- og/eða fituneysla en lítil kovetnaneysla) á sér oft stað mikið vatnstap. Og öllum ætti að vera ljóst að vökvatap er ekki það sama og fitutap.

Þú segir að úr „Gullinu” fáist öll vítamín sem við þörfnumst og spyrð hvort kúrinn eigi þá ekki að vera skaðlaus? Svarið er að svo þarf alls ekki að vera. Við verðum að hafa hugfast að líkami okkar þarf á mörgum mismunandi efnum að halda til að viðhalda heilbrigði, s.s. nægilegri orku, vítamínum, steinefnum og ýmsum jurtaefnum og þá í réttum hlutföllum.

Mér þykir ljóst að ef fólk er að léttast með þessum líka eldingshraða á Herbalife-gulli að maðkur sé í mysunni. Og líklegast má telja að hitaeiningarnar séu af mjög skornum skammti.

Kveðja,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur