Hvað verður um fóstur eftir útskröpun?

Spurning:

Sæl Dagný.

Fyrir nokkrum dögum missti ég fóstur og fór í útskröpun. Fóstrið virðist hafa náð ca. 6 vikna ,,aldri" skv. stærð. Það sem mig langar að vita, er: Hvað verður um fóstur eftir útskröpun? Er það brennt? Og hvað svo? Hefur maður val að setja það í duftreit þegar það deyr svona snemma og af hverju er ekkert talað um þetta, við fósturmissi, eða í kringum útsköpun?

Takk fyrir.

Svar:

Sæl.

Það var leitt með fósturmissinn. Um 20% meðgangna enda á þennan hátt og algengast er að það gerist á fyrstu 12 vikunum. Eftir útskröpun þegar svona stutt er gengið með er fóstrið brennt. Í Fossvogskirkjugarði er duftreitur fyrir fóstur og upplýsingar um hann veita prestar og kirkjugarðsvörðurinn þar. Yfirleitt eru fóstur ekki jörðuð nema þau séu lengra gengin. Þú ættir þó að geta fengið betri upplýsingar um þetta hjá sjúkrahúsprestinum á sjúkrahúsinu þar sem aðgerðin var gerð. Þú ættir einnig að geta fengið upplýsingar og stuðning hjá ljósmæðrum deildarinnar sem þú lást á þegar aðgerðin var gerð.
Vonandi gengur þetta betur næst.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir