Spurning:
Komdu sæl.
Ég er 28 ára móðir tveggja og hálfs árs stráks og er nýflutt ásamt eiginmanni mínum og barnsföður til Seattle. Ég var að velta fyrir mér getnaðarvörnum og þá sérstaklega pillunni þar sem við höfum notað örugg tímabil með góðum árangri sl. 5-6 ár en erum orðin þreytt á því fyrirkomulagi. Ég hef heyrt um hina sk. minipillu sem að því að mér skilst sé frekar mælt með eftir barneignir. Er þetta rétt skilið hjá mér og ef svo er hver er þá munurinn á henni og þeirri venjulegu? Ég var á pillunni í nokkur ár hér áður fyrr og notaði þá Trinovum. Hér er hægt að fá getnaðarvarnarpillur án lyfseðils og ég var því að velta fyrir mér hvaða tegund hentaði mér best núna og hvort heitin á þeim séu þau sömu hér og heima. Í sambandi við heilsufar þá er ég er hraust að öllu leyti nema skjaldkirtillinn er óstarfhæfur eftir meðgöngu og fæðingu og ég er því á Thyroxini.
Með von um góðar ráðleggingar.
Svar:
Sæl.
Ef þú hefur áður verið á pillunni án vandkvæða ætti þér að vera óhætt að fara á hana aftur nema þú hafir sjúkdóma eins og of háan blóðþrýsting, sykursýki eða sögu um blóðtappa. Vegna skjaldkirtilssjúkdómsins teldi ég þó ráðlegt að þú ræddir við lækni áður en þú byrjar á pillunni. Munurinn á mini-pillunni og þeirri venjulegu er mismunandi hormónainnihald. Venjulega pillan, öðru nafni samsetta pillan, inniheldur tvö kvenhormón: estrogen og progesteron, en mini-pillan bara progesteron. Samsetta pillan er öruggari getnaðarvörn en mini-pillan, þó það muni ekki miklu ef pillan er rétt tekin. Helsti ókosturinn við mini-pilluna er að hana þarf að taka á sama tíma daglega og mega ekki líða meira en 26 tímar milli pilla því þá minnkar öryggi hennar verulega. Hennar helsti kostur er að ekki þarf að taka blæðingahlé á henni. Mini-pillan er oft notuð af konum sem eru meðbarn á brjósti því hún minnkar ekki mjólkurframleiðslu eins og samsetta pillan gerir. Það er einnig talið óæskilegt að barnið fái í sig estrogen, sem alltaf lekur í einhverjum mæli út í mjólkina þegar samsetta pillan er notuð. Til nánari glöggvunar á heitum og innihaldi pillunnar geturðu grúskað í Lyfjabókinni á Doktor.is.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir