Hvar er hægt að fá iðjuþjálfun fyrir börn?

Spurning:

Sæl.

Ég var að lesa um barnaiðjuþjálfun á Doktor.is og hef eina spurningu. Hvar er hægt að fá aðstoð eða tíma hjá iðjuþjálfa fyrir börn? Það er ekki boðið upp þá þjónustu í skólanum sem sonur minn er í og ég hef reynt án árangurs (kannski ekki reynt nógu mikið) að komast til iðjuþjálfa með hann. Hann hefur átt erfitt með samhæfingu hreyfinga, og hann á erfitt með skrift.

Hann þurfti t.d. að fara til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra til að læra að hjóla á sínum tíma. Kennararnir vilja ekki gera mikið úr því, segja að þetta eigi við svo marga. Ég held hins vegar að þetta sé vegna þess að hann á erfitt með fínhreyfingar. Ég veit bara ekki hvert ég á að snúa mér.

Með fyrirfram þakklæti fyrir upplýsingar sem gætu hjálpað mér.
Áhyggjufull móðir.

Svar:

Sæl.

Það eru einungis tvö sveitarfélög hér á höfuðborgarsvæðinu sem hafa iðjuþjálfa innan skólans, það er Seltjarnarnes og svo Kópavogur þar sem ég starfa. Börn í hinum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins fá því þjónustu iðjuþjálfa frá æfingastöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Til þess að komast á biðlista þar, þarf fólk að fá læknabeiðni og er annað hvort hægt að snúa sér til heimilislæknis eða fara til barnalæknis. Þar sem æfingastöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra er eini staðurinn sem sinnir þjálfun er að vonum mikill biðlisti þar. Svo er auðvitað sá möguleiki að skólinn eða foreldrar kaupi þessa þjónustu beint, en það er dýrt og það eru ekki margir iðjuþjálfar sem vinna sjálfstætt. Vonandi hjálpar þetta eitthvað annars er bara að hafa samband aftur.

Kveðja,
Kristjana Ólafsdóttir iðjuþjálfi, starfar við ráðgjöf og fræðslu í leik- og grunnskólum Kópavogs.