Hvenær á að fara til kynsjúkdómalæknis?

Hvenær eftir óvarið kynlíf er best að fara til kynsjúkdómalæknis? Ég hef heyrt að ef maður fari of snemma gæti verið að sjúkdómurinn (sumir sjúkdómar, ef maður er með) komi ekki í ljós í prufunni og best sé að bíða örlítið og ekki fara samdægurs/ daginn eftir, eftir óvarið kynlíf.

Sæl/ll,

Nú veit ég ekki hvort að þú sért með einkenni fyrir kynsjúkdómi, en ef þú ert komin með einkenni, eða veist að rekkjunautur þinn var með kynsjúkdóm þá mæli ég með að þú leitir til læknis strax. Gott er að hringja í Húð og kyn eða panta tíma hjá kvensjúkdómalækni. Hægt er að athuga þetta með skoðun og/eða þvagprufu.

Nú veit ég ekki heldur hvaða kynsjúkdóm þú ert að tala um, en algengasti kynsjúkdómurinn er klamidía. Í apótekum hef ég séð til þvagprufustix fyrir klamidíu, sem þú getur keypt og gert heima.

Ef þú á annað borð færð einkenni koma þau oft í ljós einni til þremur vikum eftir kynmökin sem leiddu til smitsins. Í sumum tilvikum geta einkenni komið fáeinum dögum eftir smit.

Eins og gildir um marga kynsjúkdóma eru margir smitaðir af klamydíu án þess að vera með nein einkenni.

Þegar einkenni koma fram eru þau eftirfarandi:

Konur:

Breytt útferð eða blæðing milli tíða.

Sviði við þvaglát og/eða tíð þvaglát.

Verkir í grindarholi. Fáir þú einnig hita, ættir þú að leita læknis samdægurs.

Karlar:

Glær vökvi, gul eða hvít útferð úr þvagrásinni (það á aldrei að vera útferð úr þvagrás karla).

Sviði við þvaglát og/eða tíð þvaglát.

Eymsli og/eða verkir í pung.

 

Gangi þér vel,

Bylgja Dís Birkisdóttir, hjúkrunarfræðingur