Hvenær á ég að venja tvíburana mína af brjósti?

Spurning:

Komið þið sæl hjá Doktor.is og takk fyrir frábæra síðu.

Ég á 7 mánaða tvíbura sem fædd eru eftir 35 vikna meðgöngu. Þau hafa bæði verið á pela frá upphafi svo að segja og langar mig nú að vita hvenær megi venja þau af pelanum og hvernig sé best að gera það. Þau eru bæði ennþá að drekka mjólk á nóttunni. Á fyrst að taka næturgjafir og svo á daginn? Annað barnið er mikið háðari sínum pela og vaknar oft á nóttunni til þess að drekka meðan að hitt barnið vaknar yfirleitt bara einu sinni.

Bestu kveðjur,
Tvíburamamma

Svar:

Sæl.

Það eru mjög deildar meiningar um það hvenær má/á að venja börn af pela og ekkert eitt er rétt í þeim efnum. Þó er nú sjálfsagt best að börnin læri að drekka úr glasi fljótlega eftir 6 mánaða aldurinn og glasið verði smám saman pelanum yfirsterkara. En til að barn sem notar eingöngu pela (þ.e.er ekki á brjósti) fái sogþörf sína uppfyllta er ágætt að lofa því að halda einhverri pelagjöf fram undir eins árs aldurinn. Eftir það fer að verða erfiðara að venja það af pelanum. Ef barnið notar snuð getur það að einhverju leyti komið í stað pelans og gengið hraðar að venja það af pela.

Þegar vanið er af pela er gott að gera það jafnhliða því sem barnið er að læra að borða. Það er til dæmis ágætt að byrja með að gefa fasta fæðu í hádeginu og gefa þá drykk úr glasi með, gera síðan slíkt hið sama með morgunmáltíðina og þannig koll af kolli þar til barnið fær allan sinn vökva úr glasi. Reikna má með að barn þurfi 5 – 6 máltíðir á dag. Gott er að ætla sér a.m.k. eina viku fyrir barnið að venjast hverri máltíð og gefa sér þannig 5 – 6 vikur í að venja barnið af pelanum. Margir falla í þá gryfju að láta börnin sofna með pelann en það ætti maður að forðast því þá læra börnin ekki að sofna án þess að þemba sig út af vökva og það getur orðið erfitt að venja þau af því. Ef barnið þarf nauðsynlega að sjúga til að sofna fer betur á því að nota snuðið. Þó verður alltaf að taka tillit til einstaklingsmunsins og reyna að spila þetta svolítið eftir því hvernig börnunum líður með að hætta á pelanum.

Þú ert greinilega með ólíka einstaklinga sem þú gætir þurft að vinna misjafnlega með. Yfirleitt segir tilfinningin fyrir börnunum og hyggjuvitið manni hvað er hverju barni fyrir bestu. Hlustaðu á börnin þín og reyndu að vinna þetta í samræmi við þarfir þeirra.
Vona að þetta gangi vel.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir