Hvenær er líkaminn tilbúinn fyrir aðra meðgöngu?

Spurning:

Kæra Dagný.

Ég á 7 mánaða gamlan son og er að velta því fyrir mér hvort eðlilegt sé að ég sé ekki byrjuð að hafa blæðingar. Hann fær brjóst þegar hann vaknar á morgnana og áður en hann fer að sofa á kvöldin, síðan svona 1-2 á nóttunni en það er þó misjafnt. Ætti ég ekki að vera byrjuð þar sem hann er svo lítið á brjósti. Og hvenær heldur þú að maður sé fyrst líkamlega undir það búin að verða ólétt aftur??

Með fyrirfram þökkum

Svar:

Sæl.

Það er ekkert óeðlilegt að þú sért ekki farin að hafa blæðingar aftur. Drengurinn er að drekka nægilega oft til að halda niðri starfsemi eggjastokkanna. Það eru sérstaklega næturgjafirnar sem skipta þar máli. En nú fer líklega að líða að því að frjósemin og blæðingar komist í gang að nýju svo þú skalt nota getnaðarvarnir ef þú ætlar ekki að verða strax barnshafandi aftur. Það eru skiptar skoðanir á því hvenær kona sé líkamlega tilbúin að ganga aftur með barn, en sjálfsagt er líkaminn ekki fyllilega búinn að jafna sig eftir meðgönguna fyrr en að ári liðnu. Hvað varðar börnin þá eru flestir sálfræðingar sammála um að barn sé ekki tilbúið fyrir nýtt systkin fyrr en um þriggja ára aldurinn. Þannig er það líka þar sem náttúran fær að ráða – börnin fæðast á u.þ.b. þriggja ára fresti.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir