Spurning:
Á hvaða viku kemur í ljós hvort kynið ég geng með? Ég er komin 14 vikur á leið?.
Svar:
Sæl og takk fyrir að leita til okkar.
Kyn barnsins ákvarðast um leið og sæðisfruman frjóvgar eggið. Það er sæðisfruman sem ræður kyninu. Um leið og kona veit að hún er ólétt er því fræðilega séð hægt að vita hvort kynið hún gengur með. Sé gerð legvatnsástunga eða tekið sýni úr fylgju er hægt að greina kyn fóstursins. Þessi inngrip eru þó vanalega ekki gerð fyrr en við 12. til 16. viku meðgöngu. Með ómskoðun er oft hægt að greina kyn fósturs við 16 vikna meðgöngu og jafnvel fyrr ef ómskilyrði eru hagstæð. Hins vegar er ekki boðið upp á venjubundnar ómskoðanir á þeim tíma. Hafi fólk áhuga á að vita kyn þess barns sem konan gengur með getur það í flestum tilvikum fengið vitneskju um það við ómskoðunina sem boðið er upp á við 20 vikna meðgöngu, séu skilyrðin hagstæð í þeirri skoðun.
Vona að þetta svari spurningu þinni.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir