Hvenær er tímabært að senda börn í augnskoðun?

Spurning:

Sæll.

Hvenær er tímabært að senda börn í augnskoðun? Í fjölskyldunni er mikil fjarsýni og sjóngallar t.d. latt auga og sjónskekkja hjá móður. Sonur minn er aðeins 3 mánaða og mig langar að vita hvenær hægt er að sjá merki um slíka galla.

Kær kveðja.

Svar:

Sæl.

Ef ekki er merki um neina augnsjúkdóma á þessu stigi er ekki ástæða til að fara með hann til augnlæknis. Nokkur tileygni er m.a.s. algeng á þessum aldri á meðan sjónin er að þroskast. Ef um áberandi stöðuga tileygð er að ræða um 6 mánaða aldur, þyrfti að láta athuga það – vegna þess að latt auga getur t.d. myndast vegna þessa. Annað sem getur valdið lötu auga er fjarsýni og mikil sjónskekkja. Ef barn virðist nota annað augað meira, verður órólegt ef hendi er sett yfir annað augað en ekki hitt, getur það verið merki um að sjón sé ekki að þroskast á eðlilegan hátt.

Ef allt gengur vel og sjónin virðist þroskast eðlilega væri vænlegast fyrir ykkur að bíða eftir eins árs afmælinu áður en þið farið með hann til augnlæknis.

Bestu kveðjur,
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf.